Körfubolti

KR-ingar kæra ekki | Dómaranefndin óákveðin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
KR mun ekki leggja fram kæru vegna atviks sem átti sér stað í leik liðsins gegn Keflavík í gær.

Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR, fékk um miðjan þriðja leikhluta högg í andlitið frá Magnúsi Þór Gunnarssyni eins og sést í meðfylgjandi myndbandi.

Dómarar leiksins dæmdu ekki brot en hægt er að taka á málum sem þessum eftir að leiknum lýkur á nokkra vegu. Félög geta kært til aganefndar KKÍ, rétt eins og dómaranefnd sambandsins. Þá geta dómarar leiksins einnig lagt fram skýrslu um málið.

Rúnar Birgir Gíslason, formaður dómaranefndar KKÍ, sagði við Vísi að nefndarmeðlimir væru ekki búnir að ákveða hvort þeir myndu bregðast við í þessu máli.

„Það er ekkert öruggt í því og við erum enn að hugsa um hlutina,“ sagði Rúnar. Nefndin fékk þetta vald eftir síðasta ársþing og hefur einu sinni skotið máli til aganefndar. Þá var Ragna Margrét Brynjarsdóttir, leikmaður Vals, kærð fyrir að gefa andstæðingi olnbogaskot. Ragna Margrét fékk óþróttamannslega villu dæmda á sig í leiknum og sá aganefnd ekki ástæðu til að breyta þeim úrskurði.

Það var hins vegar ekkert dæmt á Magnús Þór í gær en Rúnar segir að það hafi ekki endilega úrslitaáhrif. „Það getur líka verið hluti af dómgæslunni að ákveða að dæma ekki á ákveðna hluti,“ sagði Rúnar.

Böðvar Guðjónsson, formaður körfuknattleiksdeildar KR, segir að deildin muni ekki aðhafast í málinu. „Við höfum leitað okkur upplýsinga og vitum að málið er hjá dómaranefnd. Mér skilst að þeir séu að skoða málið og munu taka afstöðu í dag.“

„Það er eiginlega engu meira að bæta við það. Ef dómaranefnd ætlar ekki að bregðast við þá þurfum við að endurhugsa allt kerfið. Það sést greinilega á myndbandinu að þetta er gert af ásettu ráði. Svona lagað á ekki að sjást í leikjum.“

Aðeins einu sinni hefur það gerst að dómarar vísi málum til aganefndar eftir á. Aganefnd vísaði málinu frá, rétt eins og hún gerði í tilfelli Rögnu Margrétar í vetur.


Tengdar fréttir

Olnbogaskot Rögnu Margrétar kært

Dómaranefnd KKÍ hefur ákveðið að kæra olnbogaskot Rögnu Margrétar Brynjarsdóttur, leikmanns Vals, í leik liðsins gegn Snæfelli í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×