Viðskipti innlent

Allt lagt undir og reynt að feta í fótspor Plain Vanilla

Stefán Árni Pálsson skrifar
Nýr samfélagsmiðill í appformi sem tengir saman vini á skemmtanalífinu.
Nýr samfélagsmiðill í appformi sem tengir saman vini á skemmtanalífinu. visir/daníel
Blendin er nýr samfélagsmiðill í appformi sem tengir saman vini á skemmtanalífinu. Í appinu getur þú séð hvaða vinir, vinkonur eða vinnufélagar eru að fara að skemmta sér, með hverjum, hvar og hvað þau eru að gera.

„Ég var staddur í samkvæmi í Danmörku þegar Egill Ásbjarnarson, meðstofnandi Blendin, kom til mín með hugmynd að nýju appi. App sem mundi leysa það vandamál að þurfa að hringja endalaust af símtölum til þess eins að afla upplýsinga um hverjir væru að fara að skemmta sér,“ segir Davíð Örn Símonarson,  framkvæmdarstjóri Blendin.

„Frá því hefur hugmyndin breyst mikið og í dag einu og hálfu ári seinna erum við komnir með app sem er í prófunum bæði á iOS og Android tækjum.“

Blendin verður fyrsti lokaði samfélagsmiðillinn sem þýðir að fólk mun ekki geta deilt efni úr appinu á aðra samfélagsmiðla eins og Facebook eða Twitter. Þannig getur maður valið hvaða vinir fá sent efni.

Þeir Davíð Örn Símonarson, Kristján Ingi Mikaelsson, Ásgeir Vísir og Daníel Björn Sigurbjörnsson koma að hönnun og forritun appsins og eru þeir að flytjast til Bandaríkjanna til að kynna forritið fyrir fjárfestum.

„Við erum að fara til San Francisco til þess að taka fjármagn inn í fyrirtækið. Við eigum bókaða fundi með fullt af fjárfestum og vorum við valdir til þess að vera eitt af átta fyrirtækjum sem fá að kynna sín fyrirtæki á stórri fjárfestingarráðstefnu í Kísil dalnum.“

„Við munum einnig gefa appið út á meðan á dvöl okkar stendur þannig fólk alls staðar í heiminum getur halað niður appinu í kringum aprílmánuð.“

„Við erum fjórir sem vinnum að þessu dag og nótt og erum heppnir að við erum með allt til reiðu innanborðs til þess að gera appið að veruleika. Á bak við okkur er einnig mjög sterkt ráðgjafaborð, en þar má nefna Þorstein [Baldur Friðriksson], framkvæmdastjóra Plain Vanilla, Bala Kamallakharan framkvæmdastjóra Green Qloud, Helgu Waage tæknistjóra Mobilitus og Ara Kristinn [Jónsson] rektor HR.“

Davíð segir að þeir félagar hafi lagt allt undir, sagt upp vinnum, vinum, fjölskyldum og kunningjum.

„Við erum virkilega bjartsýnir á að þessar fórnir verði þess virði og að þessi ferð muni taka Blendin upp á næsta stig.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×