Erlent

Sprengistjarna í nálægri stjörnuþoku

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Krabbaþokan. Leifar sprengistjörnu.
Krabbaþokan. Leifar sprengistjörnu. VÍSIR/NASA

Stjörnufræðingar vítt og breitt um heiminn beina nú sjónaukum sínum að vetrarbrautinni Messier 82 sem er í 12 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Tilefnið er sprengistjarna sem breskir vísindamenn komu auga á í vikunni.

Atburður sem þessi hefur ekki átt sér stað svo nálægt Jörðu í 30 ár.

Sprengistjörnur eru einhverjar hrikalegustu hamfarir sem eiga sér stað í náttúrunni en þær verða þegar sólstjarna klárar eldsneyti sitt, fellur saman undir eigin þunga og ytri lög hennar þeytast út í geiminn af miklu afli.

Fyrstu mælingar gefa til kynna að leifar stjörnunnar þenjist út á 20 þúsund kílómetra hraða á sekúndu. Þó hefur sprengistjarnan ekki náð hámarki sínu. Þannig er hér um að ræða einstakt tækifæri fyrir vísindamenn.

Ekki verður hægt að sjá sprenginguna með berum augum á Íslandi en hún ætti að sjást vel með hefðbundnum sjónauka í stjörnumerkinu Stórabirni.

Rannsóknir á sprengistjörnum hafa markað djúp spor í geimvísindasögunni. Eins og fram kemur á Stjörnufræðivefnum notuðu þrír hópar stjörnufræðinga sprengistjörnur af gerð Ia til að mæla útþenslu alheimsins. Sprengistjarnan nýja er einmitt af sömu gerð.

Rannsóknin fór fram á tíunda áratug síðustu aldar. Niðurstaða hennar var að útþensla alheimsins fer vaxandi vegna undarlegs krafts sem kallaður hefur verið hulduorka.

Samanburður á vetrarbrautinni Messier 82 fyrir og eftir að stjarnan sprakk. VÍSIR/STJÖRNUFRÆÐIVEFURINN


Fleiri fréttir

Sjá meira