Erlent

Sprengistjarna í nálægri stjörnuþoku

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Krabbaþokan. Leifar sprengistjörnu.
Krabbaþokan. Leifar sprengistjörnu. VÍSIR/NASA

Stjörnufræðingar vítt og breitt um heiminn beina nú sjónaukum sínum að vetrarbrautinni Messier 82 sem er í 12 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Tilefnið er sprengistjarna sem breskir vísindamenn komu auga á í vikunni.

Atburður sem þessi hefur ekki átt sér stað svo nálægt Jörðu í 30 ár.

Sprengistjörnur eru einhverjar hrikalegustu hamfarir sem eiga sér stað í náttúrunni en þær verða þegar sólstjarna klárar eldsneyti sitt, fellur saman undir eigin þunga og ytri lög hennar þeytast út í geiminn af miklu afli.

Fyrstu mælingar gefa til kynna að leifar stjörnunnar þenjist út á 20 þúsund kílómetra hraða á sekúndu. Þó hefur sprengistjarnan ekki náð hámarki sínu. Þannig er hér um að ræða einstakt tækifæri fyrir vísindamenn.

Ekki verður hægt að sjá sprenginguna með berum augum á Íslandi en hún ætti að sjást vel með hefðbundnum sjónauka í stjörnumerkinu Stórabirni.

Rannsóknir á sprengistjörnum hafa markað djúp spor í geimvísindasögunni. Eins og fram kemur á Stjörnufræðivefnum notuðu þrír hópar stjörnufræðinga sprengistjörnur af gerð Ia til að mæla útþenslu alheimsins. Sprengistjarnan nýja er einmitt af sömu gerð.

Rannsóknin fór fram á tíunda áratug síðustu aldar. Niðurstaða hennar var að útþensla alheimsins fer vaxandi vegna undarlegs krafts sem kallaður hefur verið hulduorka.

Samanburður á vetrarbrautinni Messier 82 fyrir og eftir að stjarnan sprakk. VÍSIR/STJÖRNUFRÆÐIVEFURINN


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.