Skoðun

Vandi heilbrigðiskerfisins og skortur á heildarsýn

Skúli Thoroddsen skrifar
Ég hrökk í kút yfir hádegisfréttum 24. nóvember sl. þegar RÚV flutti athugasemdalaust fregnir af boðskap forsætisráðherra í heilbrigðismálum. Að allur okkar vandi stafi frá fyrri ríkisstjórn kom ekki á óvart, heldur hin snauða umfjöllun. Að hans mati stafar vandi heilbrigðiskerfisins af gegndarlausum blóðugum niðurskurði fyrri ríkisstjórnar. Nú sé brugðist við og útgjöld aukin. Hvað svo?

Hinn kerfislægi vandi sem heilbrigðisþjónustan á við að etja á sér mun lengri aðdraganda en sl. fjögur ár. Árið 1994 reyndi þáverandi ríkisstjórn að taka á sjálfvirkri og stjórnlausri útgjaldaukningu ríkissjóðs vegna lyfjakaupa og sérfræðiþjónustu sem bitnaði m.a. á sjúkrahúsum og heilsugæslu. Tilraunin rann út í sandinn.

Nýr heilbrigðisráðherra ákvað þá að rugga ekki bátnum, gera ekkert og hinn kerfislægi vandi hélt áfram að hlaða upp á sig og bólgna.

Næsta tilraun til að taka á vandanum var í tíð þar síðustu ríkisstjórnar. Sú stjórn hafði ekki náð viðhlítandi árangri þegar hún hvarf frá völdum vegna hrunsins 2008. Þó hafði henni tekist að setja Sjúkratyggingar Íslands á laggirnar. Það var skref í áttina. Síðasta ríkisstjórn tók svo við uppsöfnuðum vanda, afleiðingum langvarandi skeytingarleysis, en réði hvorki við ástandið né gat haldið því þokkalega í horfinu. Það sem sú ríkisstjórn gerði þó af viti var að hefja áform um bygginu nýs Landspítala.

Þrír meginþættir

Opinber heilbrigðisþjónusta byggir á þrem meginþáttum; a) þeim sem þurfa á þjónustunni að halda, b) þeim sem veita þjónustuna, heilbrigðisstarfsfólki og c) þeim sem greiða fyrir hana, ríkið, við öll. Í slíku kerfi þarf að tryggja notendum nokkuð jafnan aðgang að þjónustu, að teknu tilliti til gæða, kostnaðar og hagkvæmni. Liður í því er m.a. sá að ríkið fái keypta þjónustu á sem hagkvæmasta verði og hafi um það að segja hvar og hvernig hún er veitt. Í því sambandi mætti bjóða tiltekna heilbrigðisþjónustu út á samkeppnismarkaði, án þess að í því felist einkavæðing. Ríkið nýtir sér hagkvæmni einkarekstrar til að lækka kostnað. Þetta á t.d. við um lyfjakaup og sérfræðiþjónustu á læknastofum, á heilsugæslustöðvum og jafnvel í útlöndum.

Grunnurinn að slíku kerfi, svo tekið sé mið af reynslu t.d. Hollendinga og Svía, byggist á skilvirku kostnaðarmati, öflugri grunn- og nærþjónustu þar sem haldið er utan um persónulegar þarfir hvers sjúklings/notanda, eftirfylgni meðferðar og tilvísunarkerfi til aðhalds. Öflugt hátæknisjúkrahús, Landspítali háskólasjúkrahús, er að sjálfsögðu máttarstoð þjónustunnar og bakhjarl.

Skortur á heildarsýn

Vandi heilbrigðisþjónustunnar í dag er ekki, eins og forsætisráðherra lýsir honum, gegndarlaus blóðugur niðurskurður fyrri ríkisstjórnar, heldur langvarandi skortur á heildarsýn. Hefja verður úrbætur miðað við aðstæður eins og þær eru og skapa framtíðarsýn. Landspítalinn er í dag rekinn í yfir hundrað ólíkum byggingum. Sumar eru þjáðar af fúkka og raka eða eru skúrar til bráðabirgða.

Nýr spítali er talinn spara milljarða í rekstrarkostnaði, fjármuni sem eru jafnvel meiri en kostnaður vegna afskrifta og vaxta af fjárfestingu hans. Ákvörðun um nýtt sjúkrahús mun stöðva yfirvofandi atgervisflótta frá spítalanum. Það er fyrsta skrefið.

Styrkja þarf Sjúkratryggingar Íslands og hlutverk ríkisins sem kaupanda og kostnaðargreinanda á skilvirkri heilbrigðisþjónustu. Efla þarf grunn- og nærþjónustu, lýðheilsu, heimilislækningar og heilsugæslustöðvar, hvort heldur er á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Taka þarf ákvörðun um kjarnasjúkrahús í landshlutum og ákvarða tengsl þeirra við Landspítala, óháð sérhagsmunum einstakra heilbrigðisstétta eða svæða. Tryggja þarf gæði, hagkvæmni og skilvirkni.

Það felur í sér kerfisbreytingu sem verður að ræða málefnalega. Hvað viljum við, hvert stefnum við, hvernig viljum við haga þjónustunni þannig að allir búi við ásættanlegt öryggi? Hver er forgangsröðunin? Að þeirri umræðu þurfa heilbrigðisstéttirnar að koma, fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga, notenda og þeirra sem besta þekkja málaflokkinn. Móta verður framtíðarsýn og leggja vörður að þeirri sýn. Þannig má ná sátt um þessa mikilvægu stoð velferðarkerfisins sem enginn vill vera án.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×