Skoðun

Orðsending til jólasveina og foreldra

Margrét Júlía Rafnsdóttir skrifar

Nú nálgast jólin og jólasveinar fara að gera sig tilbúna til bæjarferða með ýmislegt spennandi í pokahorninu í skóinn fyrir börnin. Við Íslendingar látum okkur ekki nægja einn jólasvein eins og flestar þjóðir gera, heldur þrettán sem koma einn af öðrum. Það hljóta að fylgja þessu gjafastússi mikil útgjöld á jólasveinaheimilinu, því svo virðist sem að jólasveinarnir séu hættir að búa gjafirnar til sjálfir.



Þeir hafa líklega ekki kynnt sér Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, a.m.k ekki 2. grein sáttmálans, því stundum mismuna þeir börnum. Meðan sum þeirra fá mandarínu í skóinn sinn, eða jafnvel ekkert, fá önnur rándýr leikföng eða tæki. Ungur maður trúði mér fyrir því að hann hefði eitt sinn verið að leik með vini sínum allan daginn og þeir báðir hegðað sér óskaplega vel, en næsta dag kom í ljós að sveinki hafði mismunað þeim all verulega. Honum sárnaði út í jólasveininn.



Kæru jólasveinar

Mig langar að biðja ykkur að hætta að mismuna börnum. Mig langar líka að segja ykkur að börn tala saman og bera sig saman hvert við annað. Mig langar líka að benda ykkur á að þó ykkur langi að gefa sumum börnum dýra og flotta hluti, þá er óþarfi að íþyngja litlum skóm með stórum gjöfum.



Og þá er komið að okkur foreldrunum. Það er nefnilega svo sérstakt að það virðast vera sömu börnin sem fá stóru og dýru jólagjafirnar frá foreldrum sínum og fengu þessar stóru í skóinn.



Kæru foreldrar

Við viljum öll gera börnunum okkar vel og þó við höfum efni á því að gefa stórar gjafir, þá er það ekki stærðin og verðmiðinn sem skiptir öllu máli. Við berum ábyrgð á því að kenna börnunum að meta þær gjafir sem þau fá og eitt besta veganesti sem við gefum þeim út í lífið er að þau þurfi að hafa eilítið fyrir hlutunum. Ef við gefum þeim of mikið, of snemma, erum við yfirleitt ekki að uppfylla þeirra eigin þarfir, heldur okkar sjálfra. Ofdekur getur auk þess verið ein birtingarmynd vanrækslu, sem við viljum auðvitað ekki gerast sek um.



Munið líka að börnin okkar eru í samfélagi annarra barna. Þarna úti eru börn sem fá litlar, eða jafnvel engar jólagjafir. Þetta eru líklega sömu börnin og fengu lítið sem ekkert frá jólasveinunum. Þið megið líka hugsa til þessara barna og gauka einhverju að þeim. Þið megið líka hugsa til Barnaheilla - Save the Children á Íslandi, sem nú eru að skoða málefni barna sem búa við fátækt, en þau telja næstum 9.000 börn hér á landi. Með því að fara inn á www.jolapeysan.is getið þið styrkt verkefnið með áheitum.



Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu starfi samtakanna. Öll börn eiga að njóta þeirra réttinda sem kveðið er á um í Barnasáttmálanum og ekki má mismuna þeim sökum stöðu þeirra eða foreldra þeirra. Það er samfélagsleg ábyrgð okkar að sjá til þess að öll börn geti lifað með reisn.



Hjálpumst að við að gera öllum börnum aðventuna og jólin ánægjuleg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×