Skoðun

Hvað er lesblinda?

Sturla Kristjánsson skrifar
Lesblinda er ekki meðfædd, ekki sjúkdómur sem fólk fær eða er með – lesblinda er árangur misheppnaðrar lestrarkennslu. Þeir, sem hugsa í þrívíðum myndum, eru sagðir lesblindir þegar lestrarkennsla þeirra, byggð á hljóðun bókstafa og hljóðmyndum orða, gengur ekki upp. Lestrarkennsla, sem byggð er á merkingarmyndum orða, er þeim nauðsynleg til árangurs.

Myndhugsandi læra lestur með því að upplifa merkingu orða.

Tungumálið er manngert verkfæri þróað til samskipta og málnotkunin er því lærð færni en ekki meðfæddur hæfileiki eða eðlislægur. Aftur á móti er skynjun okkur meðfædd eða eðlislæg – við upplifum að vera til og upplifum tengsl við umhverfið – „lesum“ umhverfið – okkur til bjargar og afkomu. Skynjun leiðir af sér hugsun og hugsunin gerir okkur fært að leysa verkefni – gera óþekkta hluti þekkta og gera síðan það þekkta óþekkjanlegt!

Að upplifa skynjun er því reynsla sem leiðir af sér skynsemi, vit eða greind. Maðurinn er ekki með viti borinn, að vita og þekkja er afrakstur reynslu – án reynslu er engin þekking. Það sem við upplifum ekki hefur enga merkingu fyrir okkur. Skynjun og upplifun veruleikans gefur okkur merkingarmyndir – merkingarmyndir sem eru nauðsynlegar máltökunni.

Að tala er að segja frá því sem við höfum upplifað. Við munum eða endurlifum fyrri reynslu í huganum og lærum hljóðmyndir fyrir merkingarmyndir reynslunnar. Upplifun merkingar og hugsun eru forsendur talmáls sem síðan leiðir af sér ritmál. Máltakan hefst með talmálinu, – hlustun og tali, – en notkun ritmáls, – lestur og ritun, – er lokaþátturinn. Án lestrar er máltakan ekki fullkomnuð.

Lesblinduleiðrétting

Myndræn skynjun og myndhugsun er okkur meðfædd en þegar við lærum að tala förum við að hugsa í orðum eða hljóðmyndum orða í stað merkingarmynda. Hljóðmyndir orða eru síðan varðveittar í rituðu máli eða sjónmyndum sem raðað er saman úr táknum – bókstöfum.

Börn læra að tala í faðmi fjölskyldunnar. „Kennslan“ er óformleg og stjórnast mest af áhuga og getu barnsins. Þegar börnin koma í skóla, hefst formleg lestrarkennsla. Öllum eru ætluð sömu viðfangsefni, sömu aðferðir og sami árangur á sama tíma.

Flestum farnast vel, en þó eru alltaf nokkur sem sjá lítinn árangur. Kennslan hentar þeim ekki, þau læra ekki að lesa, þau læra að geta ekki lært að lesa – þau læra að vera lesblind.

Myndræn börn, sem ekki njóta lestrarkennslu við hæfi, ná ekki valdi á lestri og eru sögð lesblind. Þau lenda síðan í afleiddum erfiðleikum þegar fram í sækir og námsárangur byggist æ meir á lestri námsbóka. Getur þá svo farið að góðir námsmenn gefist upp og hverfi frá námi, jafnvel að ráði skólans.

Það er aldrei of seint fyrir myndhugsuði, sem hafa „lært“ lesblindu, að fara í endurhæfingu – losna við lesblinduna og fara að njóta hæfileika sinna.

Lesblindan er lærð og þeir sem læra hana eiga þá náðargáfu að geta hugsað í myndum – upplifað hugsanir sem myndskeið.

Með lesblinduleiðréttingu má ná fullkomnum tökum á lestri og útrýma þannig „lesblindunni“.

Lesblinduleiðrétting hentar öllum, sem ekki hafa notið lestrarkennslu við hæfi og eru því sagðir lesblindir.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×