Innlent

Hamingjan er takmarkið

Símon Birgisson skrifar
Bubbi morthens var fluttur með sjúkrabíl á spítala fyrir tveimur vikum vegna verkja í brjósti.
Bubbi morthens var fluttur með sjúkrabíl á spítala fyrir tveimur vikum vegna verkja í brjósti. Fréttablaðið/Stefán
Á leiðinni upp að Meðalfellsvatni tekur að birta. Hvít fjöllin birtast í grámanum. Á Hvalfjarðarafleggjaranum eru fáir á ferli. Auðvitað hljómar lag eftir Bubba Morthens í útvarpinu. Kóngurinn, eins og Bubbi er oft kallaður, minnir á sig. Húsið hans ekki svo ólíkt höll sem gnæfir yfir vatninu innrammað af fögrum fjallahringnum.

Bubbi tekur á móti okkur með rótsterku kaffi. Dætur hans tvær eru veikar heima. Það snarkar í arninum í stofunni og jólaseríur og kerti mynda þægilega birtu og minna á að jólin eru á næsta leiti. Bubbi er nýbúinn að gefa út jólaplötu og við hefjum spjallið á hátíð ljóss og friðar.

„Þegar við eignumst börn og byrjum í sambúð þá tökum við með okkur jólahefðina frá foreldrum okkar. Við mótum og bætum aðeins við frá okkar eigin brjósti og þannig verður smám saman til ný hefð, okkar eigin hefð sem byggir þó í grunninn á jólum æsku okkar,“ segir Bubbi. „Jólahaldið er svolítið eins og laukur, lag ofan á lag af gömlum hefðum.“

Jólaplata kóngsins heitir einmitt Æsku minnar jól. Hún er lágstemmd og persónuleg, eins og reyndar flest verk Bubba síðustu ár. Og þrátt fyrir að vera jólaplata er lítið um bjölluhljóm eða strengi sem einkennir flestar jólaplötur þessa dagana.

„Tónlistin á þessari plötu er fyrst og fremst tengd minningum um foreldra mína. Svona hljómaði tónlistin sem þau hlustuðu á um jólin. Ég man að pabbi hlustaði á Nat King Cole, Louis Armstrong og Bing Crosby og mamma hlustaði á Edith Piaff og Marlene Dietrich. Svo gaf Haukur Morthens frændi út Hátíð í bæ og það er minn uppáhaldsjóladiskur,“ segir Bubbi.

Hann segir klisjurnar vera að ganga af jólunum dauðum.

„Það er búið að klámvæða jólin. Skoðaðu bara það sem er að gerast í kringum okkur. Jólin eiga ekki að snúast um bjölluhljóm og strengi eins og þú lýstir. Þetta eru áhrif frá Ameríku. Mér finnst jólin snúast um ljósið, fögnuð þess að daginn fer aftur að lengja. Þetta eru tímamót og augnablik til að horfa yfir farinn veg,“ segir Bubbi.

Jólin á Hrauninu

Ég spyr Bubba hvort hann sé trúaður. Hann svarar játandi– „en um jólin fer ég í rosalega vörn. Það verður allt svo yfirþyrmandi. Ég meina, það eru haldnir sextíu jólatónleikar á nokkrum vikum. Þetta eru kandífloss jól og samsafn af klisjum. Jólin snúast fyrst og fremst um manneskjuna og það sem hefur fengið mig til að meta jólin hvað mest er augnablikið þegar hlið Litla-Hrauns lokast á eftir mér,“ segir Bubbi en á hverjum aðfangadegi spilar Bubbi fyrir fanga á Hrauninu.

„Þegar maður yfirgefur Hraunið á þessum degi öðlast allt miklu dýpri merkingu og nándin við fólk verður meiri. Það er átakanlegt að vera þarna á aðfangadag. Ekkert töff eða kúl. Það er gefandi en líka sorglegt.“

Reyndar er Bubbi ekki alveg saklaus af tónleikahaldi um jólin. Það er föst hefð hjá honum að halda tónleika á Þorláksmessu og undantekningarlaust spilar Bubbi fyrir fullu húsi daginn fyrir jól.

„Já, ég hef haldið þessa tónleika síðan 1985 en fyrir mig eru þetta ekki sérstakir jólatónleikar. Þetta er miklu frekar tækifæri til að kveðja árið með aðdáendum mínum. Kannski mætti kalla þetta árshátíð trúbadorsins enda er ég alltaf einn á sviðinu,“ segir Bubbi og hlær.

Ómur úr teiknimyndum berst úr barnaherberginu og talið berst aftur að fjölskyldunni. Því dýrmætasta í lífi hverrar manneskju. Ég bið Bubba að segja mér frá uppruna sínum. Maður veit jú ekki hver maður er fyrr en maður veit hvaðan hann kemur.

Sofnaði við saumavélina

„Gréta Scotte Pedersen er dönsk og móðurættin rekur uppruna sinn til Skotlands á 14. og 15. öld. Ef ég man söguna rétt voru tvær ættir að berjast um völd í Skotlandi og móðurættin mín verður undir í því stríði. Einn úr ættinni hét Forbes. Hann gerist málaliði, fer til Danmerkur og er á endanum aðlaður og eignast lönd. Þaðan sprettur móðurættin og af þessum sökum elst móðir mín upp við ríkidæmi og fínerí. Hún var merkileg kona, langaði að ferðast um heiminn, fór til Íslands en þurfti ekki að ferðast víðar. Á Íslandi hitti hún pabba og settist hér að.“

Faðir Bubba kom úr annarri átt – ættaður frá Noregi og sonur ævintýramanns sem hafði freistað gæfunnar í Klondike: „Afi var samt sniðugur. Hann fór ekki til Klondike til að leita að gulli heldur til að selja gullgröfurunum verkfæri. Hann hafði vit til þess að grafa ekki sjálfur,“ segir Bubbi sem sjálfur hefur grætt og tapað á viðskiptum í gegnum tíðina. Það er nú oft meira freistandi að grafa eftir gullinu en að selja gullgrafaranum skóflu.

„Edward Morthens afi kom svo til Íslands og stofnar Lýsi í Hafnarfirði og er hér þar til kreppan skellur á. Hann tapaði miklum peningunum og var fluttur úr landi. Amma stóð eftir með hóp af börnum í mikilli fátækt. Og þegar mamma hittir pabba er hann fráskilinn málari og bóhem.“

Bubbi segir jólin á sínu heimili hafa verið hefðbundin. „Mamma eldaði hangikjöt og uppstúf með múskati, sem var reyndar dálítið danskt. Svo fengum við bræðurnir malt og appelsín sem var aðeins á boðstólum einu sinni á ári. Og í forrétt var danskur réttur: Ris à l"amande, möndlugrautur. En mest man ég eftir því þegar mamma tók sig til, svona vikur fyrir jólin, og þreif allt hátt og lágt. Og þá meina ég „þreif“. Það var farið í öll skúmaskot, undir skápa og hvert einasta horn þrifið í litlu kytrunni okkar í Gnoðarvoginum. Allt skúrað og skrúbbað. Svo man ég eftir saumavélinni eða réttara sagt – söngnum í Singer-saumavélinni þegar mamma sat á kvöldin og saumaði handa okkur jólafötin. Það er mögnuð minning, að sofna við þetta stef.“

Bubbi segist stoltur af nýja disknum þó ekki hafi gengið áfallalaust að koma honum út. Diskurinn átti upprunalega að koma í búðir síðustu jól en nafnlaus ábending um brot á höfundarrétti á einu lagi á disknum varð til þess að Bubbi þurfti að hætta við útgáfu. Lagið var eftir Bítlana og Bubbi hafði ekki tilskilin leyfi til að gera sína eigin útgáfu af laginu. Nú eru öll réttindamál í lagi.

„Mér finnst skipta gríðarlega miklu máli að vera heiðarlegur og einlægur. Þannig vil ég lifa mínu lífi. Ég vil líka skauta yfir væmnina. Það er svo einfalt að verða súrrealískt væminn þegar maður býr til jólalög,“ segir Bubbi. Spurður um sitt uppáhaldsjólalag svarar hann að bragði: „Heims um ból. Það finnst mér flott jólalag þó þessi setning um meinvilluna sem í myrkrinu lá þvælist enn fyrir mér. Svo er það platan hans Hauks Morthens og Ólafs Gauks. Það er ekki hægt að toppa þá snilld.“





Fluttur á spítala með hraði

Bubbi hefur lifað hratt og hátt líkt og alþjóð veit. Hann byrjaði að reykja sex ára. Drakk í óhófi og notaði fíkniefni hvern dag. Hann hefur verið edrú síðan 1996 og þrátt fyrir að neyslan hafi sett sitt mark á hann bæði líkamlega og andlega er hann í fantaformi. Hann lyftir lóðum í bílskúrnum heima hjá sér við Meðalfellsvatn, hleypur upp fjallshlíðina og er með hlaupahjól í stofunni. 

En þrátt fyrir að hugsa vel um líkamann hafa aðvörunarbjöllur tekið að hljóma. Fyrir nokkru byrjaði Bubbi að finna fyrir verk í baki. Hann hélt að um gömul íþróttameiðsli væri um að ræða og beit á jaxlinn. Á mánudaginn fyrir um tveimur vikum var Bubbi heima ásamt fjölskyldu sinni. Verkurinn ágerðist og það þurfti að flytja hann með sjúkrabíl á spítala. Í ljós kom að verkurinn var ekki í baki heldur brjósti. 

„Þetta var aðvörun, ég fékk gula spjaldið,“ segir Bubbi sem var hleypt út af spítalanum samdægurs en hefur verið settur á hjartalyf. „Ég þarf að tóna mig niður í hamagangi lífsins. Maður þarf að borga fyrir allt sem maður gerir hvort sem það er góður matur, fíkniefni eða stress.“

Þessi atburður hefur breytti lífi Bubba þó það sé eflaust stutt í að hann þeysi upp fjallshlíðina á ný.

„Í dag er heilsan í fyrsta sæti hjá mér. Það er minn stóri lærdómur þessa dagana. Og þakklætið. Að vera þakklátur fyrir það sem þú hefur. Mér finnst mikilvægt að lifa ekki í gærdeginum eða vera fastur í hugsunum um morgundaginn. Ég reyni að temja mér að njóta dagsins í dag, njóta þess að vera með fjölskyldu minni og vinum. Ef maður nær því þá er maður að lifa lífinu. Maður verður að passa sig að drepast ekki á stressi eða óhollustu,“ segir Bubbi.

Trúir á karma

Bubbi segir þá ákvörðun að verða edrú hafa bjargað lífi sínu. „Ég hélt um tíma lista yfir þá vini og kunningja sem höfðu verið mér samferða í neyslunni. Svo hætti ég því. Nöfnunum á listanum tók að fækka ansi hratt. Þegar menn deyja úr neyslu heitir það ýmsum nöfnum – stundum sjálfsvíg, stundum hjartaáfall. Ég er löngu búinn að missa töluna á þeim sem ég hef horft eftir yfir móðuna miklu vegna drykkju.“

„Ég trúi líka á karma. Ég hef til dæmis aldrei rukkað fyrir að spila í jarðarförum. Ég hef sungið í ansi mörgum jarðarförum ungs fólks sem hefur tekið eigið líf. Suma þekki ég. Aðra ekki. En það er alltaf jafn sorglegt þegar ungt fólk í blóma lífsins fellur frá út af neyslu,“ segir Bubbi. 

Ég minnist á fréttina af ungri stúlku sem fannst látin í partíi í heimahúsi fyrr í mánuðinum og það er ljóst að slíkar fréttir hafa áhrif á Bubba. 

„Við tilheyrum einfaldlega samfélagi sem lítur á unglingadrykkjuorgíur einu sinni á ári sem sjálfsagðan hlut, þar sem fullorðnum finnst eðlilegt að drekka með börnum, þar sem menn á Alþingi drekka sig fulla nokkru sinnum í mánuði og sitja svo á þingi og garga yfir dópneyslu. Það er allt á skjön og áherslurnar í heilbrigðismálum eru ansi brenglaðar,“ segir Bubbi og heldur áfram. „Ég samdi lag á síðustu plötu sem fjallar nákvæmlega um þetta, um unga stúlku sem deyr í partíi á afmælisdaginn sinn. Þessar fréttir hafa alltaf áhrif á mig. Við verðum að leggja meira fé í forvarnir. Það er ekki hægt að láta Vog berjast í bökkum. Heilbrigðiskerfið er í molum, fornvarnarstarfið er molum og Alþingi er lamað.“

Sigurinn í uppgjöfinni

Bubbi kynntist sjálfur tólf spora samtökum árið 1985 og leitaði lausnar við áfengisvandamálinu. 

„Mér gekk samt erfiðlega að finna mig. Ég var ekki að kaupa þá hugmynd að ég hefði tapað fyrir áfenginu. En því meira sem ég rembdist við að telja sjálfum mér trú um að ég væri við stjórnvölinn, þeim mun verr leið mér. Ég var oft þurr í marga mánuði en svo datt ég í það. Féll. Þetta var mikið strögl og ég þjáðist svolítið af „Hemma Gunn einkenninu“. Ég laug að þjóðinni, ég laug að vinum mínum og ég laug að sjálfum mér,“ útskýrir Bubbi.

Á endanum gafst hann upp.

„Augnablikið þegar ég gafst upp var stærsti sigur lífs míns. Það er enn ein þverstæðan. Sumir geta ekki hugsað sér að tapa. En öll töpin í mínu lífi hafa verið sigrar. Þannig er það bara. Síðan þá hef ég reynt að deila reynslu minni með öðrum. Ég hef farið skóla og talað og hugsað að ef ég næði að hafa áhrif á bara einn einstakling væri það sigur.“

Við færum okkur um set. Bubbi opnar dyrnar á bílskúrnum. Þar er lyftingabekkur og handlóð og svartur boxpúði. 

Í litlu vinnuherbergi sýnir Bubbi okkur áritaða ljósmynd af átrúnaðargoði sínu – sjálfum Cassius Clay – Muhammed Ali og Bítlunum. Í bókahillu eru ævisögur hnefaleikakappa í röðum. Fyrir utan tónlistina er boxið kannski stærsta ástríðan í lífi Bubba enda á hann sinn þátt í því að kveikja áhuga þjóðarinnar á hnefaleikjum með lýsingum sínum á Sýn og Stöð 2 í gegnum tíðina.

Sannleikurinn í hringnum

„Það eru þrjár persónur úr mannkynssögunni sem ég gæfi allt til að hitta. Cassius Clay, Chaplin og Jesús Kristur,“ segir Bubbi. „Cassius Clay kemur til sögunnar á svipuðum tíma og Bítlarnir og Bob Dylan og mér fannst hann alveg jafn merkilegur. Þetta ofboðslega sjálfstraust og hvernig hann flaut í hringnum. Það var eins og hann væri að dansa ballett bæði með höndunum og fótunum. Ég sá hann í Kanasjónvarpinu og varð gjörsamlega heillaður. Gleymi því aldrei,“ segir Bubbi. 

Hann segist heillast af hreinleika bardagaíþrótta, alveg eins og hann sé heillaður af nautabönum sem leggi líf sitt að veði á vellinum. „Ég fór eitt sinn til Spánar og ferðaðist um og horfði á nautaat. Var í nettum Hemingway-fíling. Og ég varð orðlaus að sjá 61 kílóa mann kyssa granirnar á 750 kílóa nauti. Þarna heillaðist ég af þessum íþróttum en síðar fór ég að skilja þær betur. Ég skildi að þegar tveir menn kljást í hring er lífið strípað niður í sína hráustu mynd. Þar ríkir því einhver algildur sannleikur. Í bardaganum eru engar lygar, ekkert feik eða svik. Eina sem skiptir máli meðan á bardaganum stendur er þessi sannleikur, hvort sem hann er ljótur eða fallegur. Kannski er hringurinn síðasta vígi sannleikans,“ segir Bubbi þó hann viðurkenni að eflaust séu margir ósammála honum í þessum efnum.

Leitin að hamingjunni

Þetta er hins vegar Bubbi. Hann er maður þversagna. Hann sér fegurð í ljótleikanum, hann er einlægur rokkari, hann er elskaður og hataður og hann hefur þurft að berjast fyrir sínu. John Lennon fékk einu sinni það verkefni að skrifa skólaritgerð um hvað hann vildi verða þegar hann yrði stór. Þegar hann skilaði rak kennarinn upp stór augu því aðeins eitt orð stóð á blaðinu. Hamingjusamur. Og þrátt fyrir að ritgerðin væri ekki löng fólst í henni stór sannleikur.

Bubbi segir: „Mér finnst mikilvægt að minna mig á að hamingjan er ekki einhver staður eða hlutur. Hamingjan er ekki að eignast Iphone 5c eða nýjan Ipad eða deita fallegustu stelpuna eða eiga stærsta húsið eða mest af peningunum. Það er ekki hamingjan. Hamingjan er alltaf til staðar. Inni í þér. Og maður verður að vera meðvitaður um þetta augnablik, þetta sekúndubrot sem hamingjan knýr dyra.“

Ég spyr Bubba hvenær hann sé hamingjusamur og er ekki frá því hann svari með ljóði.

„Þegar ég vakna og heyri andardrátt hússins,

þegar litla stelpan mín, nýbyrjuð að tala, segir hæ,

þegar ég horfi á bakið á konunni minni og sé þessa fallegu sveigju,

eða þegar ég er lifandi að tala við þig.

Stundum koma dagar þar sem tilveran er grá og dökk,

samt er hamingjan alltaf kringum þig. Hún kallar á þig.

En þú sérð hana ekki.

Eftir stutta þögn heldur Bubbi áfram:



„Ég held að Lennon hafi nefnilega hitt naglann á höfuðið. Það er stórkostlegt takmark að taka á móti hamingjunni. Hún kemur í alls kyns birtingarformum. Nú hlakka ég rosalega til jólanna því ég er jólabarn en það verður algjörlega undir mér komið hvernig mér líður á aðfangadag. Þannig er hamingjan. Hún kemur ekki nema þú takir á móti henni, nema þú sért með opinn faðminn og ef þú ert með opinn faðminn þá verður þú verðlaunaður mörgum sinnum á dag.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×