Skoðun

Opið bréf til Tryggingastofnunar

Joseph G. Adessa skrifar
Ég undirritaður, Joseph George Adessa, skrifa til þess er málið varðar hjá Tryggingastofnun ríkisins vegna gjörnings sem ég varð vitni að. Þannig er mál með vexti að ég fór á örorku í október 2010 og fékk örorkubætur sem eru langt undir þurftarmörkum.

Hvað um það. Tæpum tveimur árum seinna athuga ég hvort ég eigi rétt á einhverju frá lífeyrissjóðnum mínum. Búinn að borga í lífeyrissjóð frá því ég var fimmtán ára. Eftir nokkurn tíma fæ ég bréf frá lífeyrissjóðnum um að ég eigi u.þ.b. eina milljón hjá þeim, afturreiknað frá október 2010. Eftir skatt eru þetta um 600 þúsund krónur. Ég voða kátur með það. En stuttu seinna fæ ég bréf frá Tryggingastofnun ríkisins um að ég skuldi stofnuninni 450 þúsund.

Hvað er þetta? Lífeyrissjóðurinn segir að ég eigi eina milljón hjá þeim, 400 þúsund í skatt og 450 þúsund til Tryggingastofnunar ríkisins? 150 þúsund kall eftir. Allt farið til ríkisins!

Ég bara spyr, hvaða system er þetta eiginlega? Og hvaða snillingar búa til svona kerfi? Eða snúast öll kerfi hjá hinu opinbera um það að arðræna öreigana því litla sem þeir eiga?

Skortur á mannkærleika

Fólk sem er lasið á líkama eða sál, nema hvort tveggja sé, á ekki fyrir fæði, klæðum eða húsnæði, er með bætur og lífeyri langt undir þurftarmörkum. Það er alltaf verið að nuddast í þessu fólki og segja því að það sé með þúsund kalli of mikið hér og þúsund kalli og mikið þar. Hvað er þetta eiginlega? Maður þorir ekki að segja að þetta sé mannvonska. En þetta er allavega skortur á mannkærleika.

Snúum okkur að mér. Hefði ekki verið best fyrir Tryggingastofnun ríkisins að hirða bara lífeyrinn minn sem ég átti hjá lífeyrissjóðnum strax, heldur en að ég fengi hann fyrst og eyddi honum og koma síðan og rukka mig um hann? Ég bara spyr: Hvaða fíflaskapur er þetta?

Sem sagt, ef ég þigg peninginn frá lífeyrissjóðnum á ég að láta Tryggingastofnun ríkisins fá hann. Ef ég þigg hann ekki, þá fær enginn neitt, nema náttúrlega lífeyrissjóðurinn. Og aftur spyr ég: Hvaða snillingar eru þetta?

Ps.

Þið voruð að spyrja mig um skuldastöðu mína og greiðslugetu. Ég var búinn að segja við starfsfólkið hjá ykkur að ég hefði notað peninginn frá lífeyrissjóðnum til að borga upp skuldir mínar. En þetta mál snýst ekki um það. Þetta snýst um ef lífeyrissjóðurinn segir að ég eigi peninga hjá honum. Á ég hann eða á ég hann ekki?




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×