Viðskipti innlent

Opna forritunarsetur í Bandaríkjunum snemma á næsta ári

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ungir forritarar. Skólar og sveitarfélög geta á www.forritarar.is sótt um styrki úr sjóðinum Forritarar framtíðarinnar.
Ungir forritarar. Skólar og sveitarfélög geta á www.forritarar.is sótt um styrki úr sjóðinum Forritarar framtíðarinnar. Mynd/Reiknistofa bankanna
Stefnt er að því að opna reKode setur í Redmond í Seattle í Bandaríkjunum í lok febrúar eða byrjun mars, segir Rakel Sölvadóttir stofnandi sprotafyrirtækisins Skema og framkvæmdastjóri reKode vestra.

ReKode er útrás hugmynda- og aðferðafræði Skema, sem sérhæfir sig í kennslu og rannsóknum, með sálfræði, kennslufræði og tölvunarfræði að leiðarsljósi. Skema hefur vakið heimsathygli og var nýverið valið, af tímaritinu Forbes, sem eitt af tíu sprotafyrirtækjum til að fylgjast með á þessu ári.

Rakel segir að þessa dagana sé verið að ganga frá leigusamningi fyrir húsnæði undir höfuðstöðvar og reKode setur. Að mörgu sé að hyggja þegar koma á sér fyrir og stofna fyrirtæki í nýju landi. Þannig þurfi maður í Bandaríkjunum að búa sér til viðskiptasögu áður en maður geti svo mikið sem keypt sér bíl.

Ólína Helga Sverrisdóttir, 13 ára dóttir Rakelar Sölvadóttur, var nýverið í öðru sæti í vali á Tæknistelpu ársins í Evrópu 2013 (Digital Girl of the Year Award).Mynd/Rakel Sölvadóttir
Hún fór utan með fjölskylduna í haust. „Við erum hér í bakgarðinum Microsoft,“ segir hún kankvís. Vandfundinn sé betri staður fyrir höfuðstöðvar fyrirtækisins. Á döfinn sé síðan að opna viðlíka setur í San Fransisco og í Las Vegas. Viðtökur vestrtra hafi verið aftar góðar, en fyrsta námskeiðið var haldið síðasta sunnudag, „svona til að fá umsagnir og viðbrögð“ segir Rakel. 

Þá segir hún að óneitanlega hafi geta þrettán ára dóttur hennar, Ólínu Helgu Sverrisdóttur, vakið nokkra athygli ytra. „Hún er náttúrlega fyrsta tilraunadýrið og gangandi dæmi um ágæti nálgunar Skema,“ segir hún. 

Ólína varð í mánuðinum í öðru sæti í valinu á Tæknistelpu ársins í Evrópu. Þá vann hún í fyrra forritunarkeppni á vegum Bandarísku alríkislögreglunnar (FBI).

„Við erum að fara að byggja upp næstu kynslóð af nördatöffurum,“ segir Rakel. Hér heima segir hún Skema búið að kenna um 2.000 börnum og yfir 300 kennurum. Að auki hefur svo verið unnið við innleiðingu á notkun spjaldtölva og annarar tækni í fjölda skóla, auk margvíslegs samstarfs sem Skema hefur gengið til. 

Rakel segir mikla athygli sem fyrirtækið hafa fengið vissulega þrýsta á um hraðari vöxt, en hjá Skema gæti þau markvisst að því að fara ekki fram úr sér. „En við gerum ráð fyrir að setja upp alla vega fjögur setur á næsta ári,“ segir hún. Í framhaldinu verði svo farið í að setja upp. „En núna er mál númer eitt tvö og þrjú að koma upp setrinu hér.“

Nýjum sjóði ýtt úr vör

Reiknistofa bankanna og Skema ýttu fyrir helgi úr vör sjóði sem nefnist „Forritarar framtíðarinnar“. Hlutverk hans er að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum.


Að sjóðnum koma fyrirtæki af öllum stærðum og leggja honum lið á ýmsan máta. Bakhjarlar eru Nýherji, Íslandsbanki, Landsbankinn, Microsoft, RB, Cyan veflausnir og CCP. 

Í umfjöllun um sjóðinn á vef Skema kemur fram að upplýsingatæknigeirinn vaxi hratt og landið standi frammi fyrir skorti á tæknimenntuðu fólki. Þórunn Jónsdóttir framkvæmdastjóri Skema bendir á að þótt börn og unglingar verji miklum tíma í kringum tækni endi þau oft fremur í hlutverki neytenda tækni í stað þess að fá tækifæri til að vinna og skapa út frá tækninni. 

„Mikilvægt er að þau fái þjálfun og þekkingu sem til þarf til að kveikja áhugann - en áhugi er fyrsta skrefið í átt að efla enn frekar tæknimenntun þjóðarinnar,“ er eftir henni haft.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×