Innlent

„Þetta verður mjög erfitt fyrir kvikmyndagreinina“

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Laufey segir kvikmyndagerð rekna á hagkvæman hátt, allt sé fjármagnað af einkaaðilum til móts við ríkið.
Laufey segir kvikmyndagerð rekna á hagkvæman hátt, allt sé fjármagnað af einkaaðilum til móts við ríkið. Mynd/Anton
Fallið er frá áformum um 470 milljón króna framlag í Kvikmyndasjóð sem veitt var á fjárlögum ársins 2013 auk 15 milljón króna lækkunar á framlögum til sjóðsins til að mæta markmiðum um aðhald í útgjaldaramma ráðuneytisins. Kvikmyndasjóður fær því 735 milljón krónur samkvæmt fjárlagafrumvarpinu en á fjárlögum þessa árs var gert ráð fyrir 1,1 milljarði.

„Þetta verður mjög erfitt fyrir kvikmyndagreinina, það er alveg ljóst,“ segir Laufey Guðjónsdóttir, forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. „Fjármögnun verkefna hefur alltaf verið erfið og sjóðurinn hrundi með hruninu. Svo var gefið í á þessu ári með fjárfestingaráætluninni en nú hefur verið hætt við hana.“ Laufey segir að viðhalda þurfi fagmennskunni. „Hugmyndaríkir kvikmyndamenn þurfa tæki og tól. Það þarf peninga til.“

Að sögn Laufeyjar kemur niðurskurðinn ekki á óvart í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið viðhöfð undanfarið. „Hinsvegar held ég að kvikmyndagerðin hér sé rekin á mjög hagkvæman hátt,“ útskýrir Laufey. „Til móts við fjárframlög ríkisins kemur fjármagn frá einkaaðilum. Fjármögnun frá ríkinu margfaldast því í gegnum fjármögnun annars staðar. Hins vegar er ekkert hægt gera nema styrkveitingum frá ríkinu.“

Hún óttast það að hæfileikafólk í kvikmyndagerð flytji annað ef það verða ekki næg verkefni á boðstólum. „Það þarf alltaf visst mörg verkefni til þess að halda fólkinu innan greinarinnar og í þjálfun. Ég óttast að það verði erfitt. Þetta er alþjóðleg grein og fólk leitar annað,“ segir Laufey sem vonast þó til þess að okkar hæfileikafólk vilji dvelja hér á landi áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×