Skoðun

Maður að mínu skapi

Bragi Ólafsson skrifar
Kveikjan að leikverkinu Maður að mínu skapi – stofuleikur var hvorki persóna Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar né samkynhneigð. Og þaðan af síður kynhneigð Hannesar Hólmsteins. Enda má vera ljóst, strax á fyrstu mínútum verksins, að Guðgeir Vagn, sá sem talinn er vera skopstæling á Hannesi Hólmsteini, líkist í engu þeirri meintu fyrirmynd, hvorki í útliti, látbragði né talsmáta.

Og það má heita býsna frumstæð skynjun á leiktexta að jafn óljós fyrirmynd og hér um ræðir sé það sem standi upp úr að leik loknum. Að ásaka höfund um fordóma og fyrirlitningu í garð samkynhneigðs fólks hefur hugsanlega þann tilgang að draga athyglina frá efni leikritsins, en um leið gera slíkar ásakanir lítið úr samkynhneigðum með því að gefa í skyn að ekki megi gera grín að þeim.

Ein uppspretta verksins er bók með fleygum orðum sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson tók saman; bók sem mér fannst vera frjór jarðvegur til að vinna úr skáldskap, og öllum er frjálst að nota að vild, jafnvel snúa út úr eða afbaka.

Í leikritinu nota ég bók af sömu gerð, sem eins konar vopn í baráttunni sem fram fer á sviðinu; og eins og oft gerist þegar persónur í leik – og raunverulegar manneskjur – grípa til vopna, þá snúast vopnin í höndum þeirra. Enda er líka hugsanlegt að vopnin hafi snúist í höndunum á mér, höfundi þessa leikrits; kannski eiga sumar persónur mínar sér samsvörun við ákveðin öfl í samfélaginu sem ekki þykir við hæfi að gagnrýna eða grínast með á stóra sviði Þjóðleikhússins.

Hingað til hef ég reynt að forðast að tjá mig um merkingu eða inntak skáldverka minna – slíkt er ekki hlutverk höfundar – en þar sem umræðan um þetta tiltekna verk, Maður að mínu skapi, er farin að litast af rangfærslum, og alvarlegum ásökunum þeirra sem ekki hafa séð verkið, þá vil ég ítreka að þetta er skáldverk frá grunni, um skáldaðar persónur; og fjalli það um eitthvað ákveðið í mínum huga, þá myndi það vera óheiðarleiki, afneitun og valdafíkn – og skáldskapur sem fer úr böndunum.




Skoðun

Sjá meira


×