Skoðun

Vitundarvakning um krabbamein í kvenlíffærum

Fæðinga- og kvensjúkadómalæknar skrifar
Næstkomandi sunnudag, 29. september 2013, fer fram svo kallað Globeathon sem er alþjóðlegt átak yfir 80 landa sem hafa sameinast um að efla vitund, þekkingu og rannsóknir tengdar krabbameinum í kvenlíffærum.

Um er að ræða göngu/hlaup sem fer fram um alla jörðina á sama degi. Íslendingar taka þátt í þessu átaki og hefst gangan/hlaupið kl. 13.00 fyrir utan Kvennadeild Landspítalans.

Af þessu tilefni viljum við vekja athygli á krabbameinum í kvenlíffærum á Íslandi. Hér greinast um sextíu konur ár hvert og árið 2011 voru tæplega 1.000 konur á lífi með krabbamein í kvenlíffærum.

Leghálskrabbamein eru í dag um 2,4% allra krabbameina hjá konum á Íslandi og er meðalaldur við greiningu 45 ár. Vegna skipulagðrar leghálskrabbameinsleitar hefur nýgengi sjúkdómsins lækkað á Vesturlöndum. Leghálskrabbameinsleit hefst við 20 ára aldur og er konan svo boðuð í hópleit með reglulegu millibili. Tekið er frumustrok frá leghálsi og gefur það möguleika á að greina forstigsbreytingar, áður en krabbamein hefur náð að þróast.

Leghálskrabbamein orsakast af vissum tegundum HPV-veiru sem smitast við kynmök. Þróað hefur verið bóluefni gegn HPV-veirum 16 og 18 en þessar veirur valda um 70% allra leghálskrabbameina. Stúlkur eru bólusettar hérlendis við 12 ára aldur.

Reglubundin skoðun

Leghálskrabbamein eru oftast einkennalaus en algengustu einkennin eru blæðingar og verkir við samfarir. Á Vesturlöndum greinast flest meinin við leghálskrabbameinsleit og eru þá á byrjunarstigi og batahorfur góðar. Konur sem greinast með langt genginn sjúkdóm hafa yfirleitt ekki mætt reglulega í krabbameinsleit. Ólíkt öðrum tegundum krabbameina má koma í veg fyrir flest leghálskrabbamein, með reglubundinni skoðun og þátttöku í hópleitinni.

Krabbamein í leggöngum og ytri kynfærum kvenna eru mjög sjaldgæf og eru innan við 1% greindra krabbameina hjá konum á Íslandi. Þessi krabbamein eru hægt vaxandi og einkenni byrja oft sem kláði á kynfærunum, roði, litabreytingar eða sár. Horfur eru yfirleitt góðar ef krabbameinið er staðbundið.

Krabbamein í legbol eru tæp 4% allra krabbameina sem greinast hjá íslenskum konum. Krabbamein í legbol eiga oftast upptök sín í slímhúðinni innan í leginu. Aukið magn estrogens veldur ofvexti á slímhúðinni í leginu, sem getur leitt til krabbameins. Helstu áhættuþættir eru offita, inntaka estrogen-hormóna án mótframlags progesterons, ungur aldur við fyrstu blæðingar og seinkomin tíðahvörf.

Helstu einkenni legbolskrabbameins eru yfirleitt óeðlilegar blæðingar og blæðingar eftir tíðahvörf. Horfur sjúklinga sem greinast með legbolskrabbamein eru yfirleitt góðar því að það greinist oftast á frumstigum þar sem krabbameinið hefur ekki náð að dreifa sér út fyrir legið.

Eggjastokkakrabbamein eru um 2,3% allra illkynja æxla hjá konum hérlendis. Þessi mein eru algengust hjá konum eftir fimmtugt. Orsakir eggjastokkakrabbameins eru í flestum tilvikum óþekktar, en þekktir eru þættir sem auka eða minnka líkur á að fá sjúkdóminn. Í fáum tilfellum er sjúkdómurinn arfgengur.

Einkenni eggjastokkakrabbameins eru lítil í upphafi og flestar konur greinast ekki fyrr en æxlið hefur náð að dreifa sér. Horfur eru mismunandi eftir því hve útbreiddur sjúkdómurinn er.

Ábyrgð á eigin heilsu

Um þriðjungur Íslendinga fær krabbamein á lífsleiðinni. Krabbamein í kvenlíffærum eru tæp 10% af öllum krabbameinum kvenna hér á landi. Það er mikilvægt að taka ábyrgð á eigin heilsu, vera vakandi fyrir einkennum og mæta reglulega í krabbameinsleit. Með Globeathon-göngunni viljum við hvetja til aukinnar vitundar, styðja konurnar okkar sem eru að berjast við sjúkdóminn, konurnar sem hafa læknast og standa uppi sem sigurvegarar, fjölskyldurnar sem standa við bakið á þeim, fólkið sem tekur þátt í baráttunni með rannsóknum, hjúkrun og lækningu. Við óskum eftir þínum stuðningi og hvatningu. Skráning er á hlaup.is. Við göngum til að ráða niðurlögum krabbameins í kvenlíffærum!

Upplýsingar um krabbamein á Íslandi eru fengnar úr krabbameinsskrá, www.krabbameinsskra.is




Skoðun

Sjá meira


×