Lífið

Fegurðarsamkeppnin var stökkpallur fyrir mig

Marín Manda skrifar
Gígja Birgisdóttir.
Gígja Birgisdóttir. Myndir/Björg Vigfúsdóttir
Gígja Birgisdóttir var krýnd fegurðardrottning Íslands  aðeins 18 ára. Draumurinn var að flytja til heitra landa og nú hefur hún búið í Lúxemborg í 20 ár og rekur stílistafyrirtækið Gia in style. Lifið ræddi við Gígju um fegurðardrottningar ævintýrið, menntunina erlendis og hvernig maður velur að vinna við það sem maður elskar.

Hvað dreymdi þig um að verða þegar þú varst yngri?

„Prinsessa í kastala í heitu landi.“

Þú varst valin fegurðardrottning Íslands árið 1986. Hvernig kom það til að þú fórst í keppnina?

„Þetta var nú algjörlega óvart. Ég hafði ekki mikið sjálfsálit á þessum tíma, var löng, mjó og með rautt hár í þokkabót.

Einn góðan veðurdag hringdi Heiðar Jóns í mig og spurði hvort ég vildi ekki taka þátt í Ungfrú Akureyri. Ég var í svo miklu sjokki að ég man varla eftir samtalinu. Til að gera langa sögu stutta, þá sigraði ég Ungfrú Akureyri og tók þátt í Ungfrú Ísland um mánuði seinna og var valin Fegurðardrottning Íslands.

Þetta gerðist allt svo hratt og ég var svo ung og óreynd og var allt í einu orðin „fræg“ á Íslandi. Ég hafði aldrei labbað á háhæluðum skóm og átti auðvitað ekki svoleiðis. Ég keypti mér eina hvíta með 6 cm hæl fyrir keppnina og svo fjárfesti ég í svörtum hælum fyrir Miss World-keppnina. 

Mér fannst ég vera þvílíkt fullorðin, rétt 18 ára. Þegar ég horfi til baka var ég mjög óþroskuð og áhrifagjörn. Fólkið sem stóð að keppninni var sem betur fer þvílíkt eðalfólk. 

Heiðar Jóns og Jana Geirs eru höfðingjar og ég er óendanlega þakklát fyrir allt sem þau gerðu fyrir mig. Unnur Arngríms er líka mikil fyrirmynd fyrir mig og gaf mér ómetanleg ráð fyrir framtíðina.“ 

Urðu miklar breytingar í lífi þínu eftir keppnina?

„Það gerðust fullt af spennandi hlutum í mínu lífi og ég fékk nokkur gylliboð um módelstörf t.d. í París og Ástralíu, sem ég hafnaði auðvitað því ég var á leiðinni í háskóla í Bandaríkjunum. 

Þetta var góður stökkpallur fyrir mig. Þetta var allt öðruvísi en þetta er í dag. Samfélagsmiðlar voru ekki til og eflaust varð einhver gagnrýni bak við lokaðar dyr eftir Miss World en ég kom ekkert skemmd út úr þessu því ég heyrði ekkert nema jákvæðar raddir.

Ég flutti til Reykjavíkur, fékk vinnu í Íslandsbanka og var á fullu í tískusýningum með Módelsamtökunum. Unnur Arngríms hugsaði ótrúlega vel um módelin sín.

Það var brjálað að gera hjá okkur og ég hafði bara nokkuð gott upp úr þessu, sem hentaði vel þar sem ég var að safna fyrir háskólanáminu í Bandaríkjunum.“



Það hafa verið uppi ýmsar gagnrýnisraddir varðandi fegurðarsamkeppnir í dag, hvað hefur þú að segja um það?

„Hver og einn hefur rétt á sinni skoðun. Það getur vel verið að þessi keppni sé mikið breytt síðan ég tók þátt á sínum tíma. Þetta hafði jákvæð áhrif á mitt líf þrátt fyrir að ég hafi ekkert verið að nefna þetta í mörg ár hér úti. Þátttakan hjálpaði mér að taka næsta skref í átt að náminu í Bandaríkjunum sem ég þráði svo mikið.“

Árið 1986 var Gígja krýnd Fegurðardrottning Íslands
Varð námið í Ameríku að veruleika?

Árið 1989 pakkaði ég í ferðatöskur og hélt af stað til San Diego og útskrifaðist með hæstu einkunn í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði frá San Diego-ríkisháskólanum. 

Ég fékk vinnutilboð í San Diego, Los Angeles og New York og eitt tilboð í Lúxemborg, sem ég samþykkti.

Í fyrra fór ég svo til London í meira nám og er nú löggiltur útlitsráðgjafi eða „Certified Image Consultant“ frá London Image Institute.

Gígja hjálpar fólki að finna sinn eigin stíl.
Hvað er löggildur útlitsráðgjafi, í hverju felst það?

„Það er búið að gera alls konar rannsóknir á því hvernig fólk dæmir aðra manneskju á fyrstu fimm sekúndunum þegar þú hittir hana í fyrsta skipti.

Það ytra passar ekki alltaf við það innra og sumt fólk þarf því ráðgjöf við að finna sjálft sig, sinn stíl og blómstra. Þetta er ekki beint að vera stílisti heldur er þetta sambland af markþjálfun, litagreiningu og ráðgjöf.

Ég er þó ekki sérfræðingur í öllu og er ekki að sálgreina fólk og leysa þeirra dýpstu vandamál heldur hjálpa því að laga útlit sitt svo því líði betur. Það er heilmikil undirbúningsvinnu sem fylgir svona verslunarferli og ég þarf að vita ýmsar grundvallarupplýsingar um lífsstíl viðskiptavinarins og hafa ákveðna fjárhagsáætlun svo ég viti hvað ég hef til að vinna með.

Ég fer svo og forversla fyrir viðskiptavininn þannig að þegar hann mætir á svæðið eru ákveðnar vörur tilbúnar fyrir hann í réttri stærð. Þannig verður verslunarleiðangurinn að meiri upplifun og tekur styttri tíma.“ 

Nú hefur þú búið í Lúxemborg í 20 ár, hvað er það sem heillar þig mest við borgina?

„Mér finnst alveg yndislegt að búa í Lúxemborg sem er mjög falleg og á sér langa sögu. Borgin er mjög miðsvæðis í Evrópu og því auðvelt að ferðast. Við förum mjög oft til Brussel um helgar því tengdaforeldrar mínir búa þar rétt hjá. Borgin er líka þægilega stór og mjög alþjóðleg.

Það er mjög mikið að gerast í menningarlífinu í Lúxemborg. Við förum á klassíska tónleika minnst einu sinni í viku og svo erum við með áskriftarmiða í Óperuna bæði í Lúxemborg og í Brussel.“ 

Talarðu tungumálið?

„Ég tala frönsku og get bjargað mér á lúxemborgísku. Ég hefði aldrei ímyndað mér að ég ætti eftir að búa í landi þar sem franska er aðaltungumálið. Ég skellti mér því á „intensive“ námskeið í þrjá og hálfan mánuð og reyndi að vera eins mikið og ég gat í kringum franska tungu. 

Hlustaði bara á franskt útvarp og las bækur og tískublöð á frönsku. Í dag tala ég frönsku reiprennandi. Ég er svo að brasa við að læra lúxemborgísku. Eldri strákurinn minn talar fimm tungumál reiprennandi og sá yngri talar þrjú.

Á heimilinu tölum við fjögur tungumál. Ég tala íslensku við strákana, maðurinn minn talar frönsku við þá, ég tala ensku við manninn minn og þegar við erum öll saman tölum við frönsku. Barnapían okkar er frá Bosníu og talar lúxemborgísku.“

Nú breyttir þú um starfsvettvang og stofnaðir þitt eigið fyrirtæki, Gia in Style, á síðasta ári. Hvernig kom það til?

„Ég var í fjármálabransanum í rúm 15 ár. Byrjaði hjá Schroder Investment Management árið 1996 og var þar í 10 ár í lögfræðideild, regluvörslu og áhættustjórnun. Síðan var ég ráðgjafi hjá Deloitte í rúm tvö ár og síðasta starf mitt í fjármálabransanum var hjá Brown Brothers Harriman. 

Störfin mín hafa alltaf verið krefjandi og vinnutíminn í Lúxemborg er langur. Maðurinn minn vinnur mikið svo það var erfitt að láta hlutina ganga upp. Jafnvel þótt ég hafi alla þá hjálp sem ég þarf til að reka heimilið.

Mér fannst ég vera komin með bauga niður á hné og ekki hafa nægan tíma til að sinna strákunum mínum, svo ég ákvað að segja upp í vinnunni hjá BBH. 

Ég er ekki sú týpa sem situr heima með lappirnar upp í sófa og bíður eftir að karlinn komi heim. Ég vildi geta verið minn eigin herra og ákvað að gera það sem ég vissi að ég væri fær í svo útlitsráðgjöf var auðvelt val.

Upphaflega hugmyndin mín var að bjóða upp á fyrirsætu- og framkomunámskeið fyrir ungt fólk. Slík námskeið hafa gengið mjög vel á Íslandi um árabil og hjálpað mörgum ungmennum að byggja upp sjálfstraust og læra undirstöðuatriði í mannlegum samskiptum.

Nú er ég komin í samstarf við þýska og lúxemborgíska snyrtifræðinga, ljósmyndara, fitnessþjálfara og sálfræðinga.“



Gígja er stórglæsileg kona.
Hverjir hafa aðallega verið viðskiptavinir Gia in Style?

„Viðskiptavinir mínir koma frá öllum stéttum þjóðfélagsins og hafa aðallega verið konur frá 30 ára og eldri. Mikilvægasta auglýsingin í Lúxemborg er orðsporið og það hefur gengið vel því viðskiptavinir mínir eru ánægðir.“ 

Hverjir eru þínir uppáhaldshönnuðir og af hverju?

„Þegar ég kaupi mér föt finnst mér mikilvægt að þau séu úr góðum efnum og að snið og allur frágangur sé vandað. Mér finnst kjólar frá Diane Von Furstenberg flottir og kvenlegir.

Bestu vinnudragtirnar fyrir mig eru frá D&G, ég þarf ekki einu sinni að máta. Ég hef notað sömu stærð síðustu ár og það er bara eins og einhver hafi staðið með málband og mælt mig út, smellpassar alltaf. Ég keypti mér mína fyrstu D&G-dragt fyrir 12 árum og hún er enn eins og ný. 

Ég fer til Ítalíu nokkrum sinnum á ári og fer þá alltaf í The Mall, sem er svona „designer outlet“ fyrir utan Flórens. Þar er D&G-verksmiðjan og öll stóru ítölsku merkin á niðursettu verði. 

Synir Gígju, Leo-Thor 12 ára og Viktor Týr 5 ára.
Hefur þú fylgst eitthvað með íslenskum hönnuðum?

„Íslendingar eru mjög skapandi, fara ótroðnar slóðir og hika ekki við að vera smá öðruvísi. Í þessari Íslandsferð er ég búin að næla mér í geggjaðan kjól frá ELLU. Mér finnst hann æði, vandaður, klassískur, kvenlegur og elegant. 

Ég fann líka mjög skemmtilegan regnjakka frá Farmers Market sem nýttist vel í ferð okkar yfir Kjölinn. Mér finnst líka skartgripirnir frá Steinunni Völu sjúklegir. Í Lúxemborg er fólk miklu meira klassískt og hefðbundið. 

Ég hef því lent í því að kaupa mér eitthvað mjög íslenskt en þegar ég kem aftur til Lúxemborgar horfir maðurinn minn á mig eins og ég sé geimvera og segir „What are you wearing, you can not go out like this.““

Hver eða hvað veitir þér innblástur í þínu daglega lífi?

„Mér finnst vinnan mín rosalega skemmtileg, einhver sagði: „Once you manage to make a career out of your passion, you will never work again.“

Ég vinn sennilega meira núna en þegar ég var í fjármálabransanum en ég hef svo gaman af þessu að mér finnst þetta ekki eins og vinna. Mér finnst gaman að vakna á morgnana og takast á við daginn. 

Það eru líka þvílík forréttindi að geta skipulagt sinn tíma sjálf. Ég hef meiri tíma fyrir fjölskylduna, get ferðast með manninum mínum og eytt kvöldum með honum án þess að vera dauðþreytt eftir erfiðan vinnudag.“ 

Hverjir eru framtíðardraumarnir?

„Ég væri til í að byggja upp tískusýningarbransann í Lúxemborg og hjálpa „local“ hönnuðum að koma vörum sínum á framfæri. Ég er meðal annars í samvinnu við konur sem hanna ótrúlega glæsilega klúta (www.vol-t-age.com). 

Ég er búin að vera einstaklega heppin með að koma mér á framfæri í fjölmiðlunum hérna úti en nú þarf ég bara að fullkomna Lúxemborgartískuna mína svo ég hafi betri aðgang að markaðnum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×