Viðskipti innlent

Frumkvöðlar þróa fyrsta íslenska viskíið

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Þróunarvinna er hafin við bruggun á íslensku viskíi sem vonast er til að komist á markað innan fárra ára.

Birgir Már Sigurðsson, höfundur Þoran-verkefnisins, segir að þessi þróunarvinna hafi verið tryggð þar sem verkefnið hafi verið kosið eitt af tíu álitlegustu viðskiptahugmyndunum í frumkvöðlakeppninni Startup Reykjavík. „Þannig að við erum með sérhæfða leiðbeinendur sem hjálpa okkur við þessa vinnu,“ segir hann.

Birgir Már segir að bæði sé verið að prófa að brugga úr íslensku og erlendu byggi. „Reyndar er það svolítið óhentugt hvað það spírar illa en það er líka verið að þróa þá ræktun hér á landi þótt ekki sé verið að erfðabreyta neinu,“ segir hann.

„Seinnipart ágúst verður verkefnið kynnt fjárfestum og ég er bjartsýnn á að þeir taki okkur vel. Þá var bara hægt að einhenda sér í þróunarvinnuna og svo vinnslu og markaðssetningu.“

Óttar Bragi Þráinsson kornbóndi segir að mikil umræða eigi sér stað um hvernig auka megi verðmæti kornsins. Nú þegar er bruggaður bjór úr íslensku byggi og eins eru kornbændur á Þorvaldseyri og á Vallanesi fyrir austan með framleiðslu á morgunkorni og öðrum kornvörum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×