Lífið

Veggmynd vekur athygli

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Maðurinn á myndinni horfir glaðlegum augum á vegfarendur í Vesturbænum. Myndin er eftir ástralska listamanninn Guido Van Helten.
Maðurinn á myndinni horfir glaðlegum augum á vegfarendur í Vesturbænum. Myndin er eftir ástralska listamanninn Guido Van Helten. Mynd/GVA

„Mér leist vel á listamanninn og treysti honum til að gera þetta vel," segir Ragnheiður Björk Sigurðardóttir, eigandi steinhúss í Vesturbænum í Reykjavík.

Það er óhætt að segja að málverk af eldri manni sem þekur hlið hússins hafi vakið athygli vegfaranda á síðustu dögum. Það er listamaðurinn Guido Van Helten sem á heiðurinn af myndinni en hann hefur dvalið hér á landi frá því í apríl.

Ragnheiður Björk segir að hún hafi ekki enn séð myndina þar sem hún er upp í sumarbústað. Hún vonast til að málverkið fái að lifa á veggnum. „Það kemur bara í ljós, ef þetta kemur vel út þá fær þetta örugglega að lifa eitthvað áfram."

Guido segist vinna veggmyndirnar eftir ljósmyndum sem hann setur síðan inn í forrit í Iphone-síma og málar eftir.

Nánar er fjallað um málverkið í Fréttablaðinu á morgun, þar sem rætt er meðal annars við Guido Van Helten.
Fleiri fréttir

Sjá meira