Skoðun

Vorpróf nemenda

Jóhann G. Thorarensen skrifar

Það er komið að lokapunktinum hjá nemendum mínum á þessari önn: lokapróf. Ég stend og horfi yfir hópinn á þessa einstaklinga sem ég hef fengið að kynnast eina önn. Þarna er einn vandræðagemsinn minn sem var einstaklega erfiður og truflandi í upphafi annar en braggaðist er á leið. Það tók sinn tíma að fá hann til að læra, að einbeita sér að náminu og hætta að trufla aðra, en það hafðist. Og nú situr hann og vinnur. Vonandi nær hann að spjara sig. Þarna er líka nemandinn sem ég hefði viljað geta sinnt svo miklu betur. Hún hefði þurft svo miklu meiri aðstoð en hægt var að veita henni. En alltaf sat hún prúð og þögul og reyndi sitt besta. Hún er ein af litlu músunum mínum. Ég las gögn um daginn sem sögðu að betra skólastarf fengist með stærri bekkjum og færri kennurum. Hvað ætli yrði um litlu mýsnar mínar í þannig bekkjum? Og þarna situr gaurinn minn sem langar í raun ekkert að vera þarna. Hann langaði í iðnnám. En pabbi og mamma sögðu að hann yrði að taka bóklegt nám fyrst. Af hverju hann verður að sitja í námi, sem hann hefur engan áhuga á, í fjögur ár til þess að mega fara í nám sem hann virkilega langar í og myndi blómstra í, veit ég ekki. Sérstaklega þar sem hann gæti síðan tekið bóklegt ofan á það nám og lokið þannig stúdentsprófi. Og þarna situr töffarinn minn sem er vinna allt of mikið. Hún hefur mætt illa í vetur. Hún er að vinna svo mikið sagði hún mér þegar ég benti henni á mætinguna. Þegar ég benti henni á að hún þyrfti að nota meiri tíma í námið spurði hún mig að því hvort ég gerði mér grein fyrir hvað það kostaði að vera unglingur í dag? Maður verður að klæða sig flott og eiga iPod og fleira. Ég lít snöggvast á snjáða skóna mína og hugsa um gamla farsímann minn í vasanum. Ég er ekki einu sinni viss um að ég geti sent myndskilaboð með honum. En ég ætla ekki að kvarta yfir lágum launum. Ég kaus mér þetta starf. Ég renni augunum yfir allan hópinn og það læðist bros út í annað munnvikið. Ef samfélagið bara vissi hvað í raun býr í skólunum, um alla þá flóru ungmenna sem þar hrærast á hverjum degi, um öll þau fjölbreyttu verkefni sem þau fást við, um þann þroska sem þau taka út á þeim fjórum árum sem þau eyða í menntaskólanum. En stundum virðist sem samfélagið sé uppteknara af því að búa til skólakerfi líkt því sem birtist í myndinni The Wall eftir Pink Floyd, þar sem nemendur eru bara afurð á færibandi. Próftímanum er lokið og ég tek prófin og kveð nemendur mína. Þau voru nokkuð sátt við prófið. Krefjandi en sanngjarnt. Þannig á það líka að vera. Þannig mætti samfélagið líka vera við þau.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×