Skoðun
Björn Jón Bragason sagnfræðingur.

Framtíðarflugvöllur í Vatnsmýri

Björn Jón Bragason skrifar

Nú hafa hugmyndir um flugvöll á Hólmsheiði enn á ný skotið upp kollinum og raunar með ólíkindum að stjórnmálamenn sem vilja taka sig alvarlega skuli ljá máls á slíkri framkvæmd.

Samkvæmt nýlegri skýrslu Veðurstofunnar yrði flugvöllur á Hólmsheiði lokaður 28 daga á ári. Því mætti líkja við það ef bráðamóttaka Landspítalans væri lokuð 28 daga á ári. Þá hafa flugmenn bent á mikla sviptivinda á Hólmsheiði sem stórauka áhættu flugfarenda.

Kostnaðaráætlanir hljóða upp á 17,2 milljarða króna og vandséð að slíkum fjármunum væri vel varið í flugvöll, þegar annar er þegar til staðar sem gagnast mun betur. Í þessu sambandi má nefna að ekki hafa verið til fjármunir til kaupa á nýrri þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna. Á sama tíma eru varla til peningar í galtómum ríkissjóði til að færa alla flugstarfsemi Landhelgisgæslunnar annað, reisa þar flugskýli og alla aðstöðu aftur.

Íbúar í Grafarholti keyptu sér fasteignir í þeirri trú að þar væri rólegt hverfi fjarri skarkala borgarinnar. Með flugvelli á Hólmsheiði væru þær forsendur brostnar. Íbúar í nágrenni Reykjavíkurflugvallar vissu er þeir keyptu fasteignir sínar að völlurinn væri þar sem hann er og yrði líklega áfram, enda hafa flugvélar tekið á loft og lent á þessu svæði um langan aldur. Í þessu sambandi er vert að gefa því gaum að flugmenn hófu vélar á loft úr Vatnsmýrinni löngu áður en breska setuliðið gekk á land og árið 1939 kom fram í úttekt Reykjavíkurbæjar að Vatnsmýrin væri álitlegasta staðsetning fyrir flugvöll. Því má segja að það hafi verið gæfa Reykvíkinga að breski herinn skyldi reisa flugvöll á þessum sama stað ári síðar. Hann er sérlega vel staðsettur með tilliti til veðurfars og annarra þátta er snerta flug, en auk þess að vera miðstöð innanlandsflugs og flugs til Grænlands og Færeyja er hann varaflugvöllur fyrir millilandaflugið.

Tilfinnanleg áhrif
Staðsetning vallarins er einnig hentug í ljósi þess að æðstu mennta- og stjórnsýslustofnanir þjóðarinnar eru flestar í næsta nágrenni hans, auk verslana og hvers kyns þjónustu, að ekki sé minnst á aðalsjúkrahús landsins. Þá fóru 777 tonn af vörum og pósti um völlinn á síðasta ári. Ef flugvöllurinn hyrfi úr Vatnsmýri myndi flugsamgöngum hér innanlands án efa hraka og áhrifin á ferðaþjónustuna yrðu tilfinnanleg, að ekki sé minnst á fjölda starfa sem glötuðust úr borginni, starfa sem tengjast flugrekstri og flugkennslu og fylgja Reykjavíkurflugvelli. En í heildina hefur verið talið að um eitt þúsund störf fylgi vellinum og starfsemi honum tengdum.

Mikil tækifæri eru fólgin í staðsetningu Reykjavíkurflugvallar, en borgir víða um heim hafa keppst við að koma sér upp flugvöllum eins nærri miðborgum og hægt er vegna þarfa viðskiptalífsins. Flugvöllurinn í London City er alveg við fjármálahverfi borgarinnar og þjónar því og þá eru flugvellir alveg við miðborgir Chicago, Toronto og San Diego svo dæmi séu nefnd. Staðsetningin í Vatnsmýri verður sífellt mikilvægari í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, sem vonandi fær að dafna hér á komandi árum og áratugum.

Ætla má að sú óvissa sem ríkt hefur um framtíð Reykjavíkurflugvallar hamli uppbyggingu frekari starfsemi, en ljóst er að sóknarfærin eru mikil, til að mynda í ljósi stóraukinna umsvifa á Grænlandi. Hljóðmengun af vellinum þyrfti ekki að aukast að ráði með auknum umsvifum enda nýjustu vélar mjög hljóðlátar, til að mynda hin nýja Airbus þota Færeyinga sem er hljóðlátari í aðflugi en Fokkerar Flugfélags Íslands.

Mikilvægi vallarins fyrir reykvískt atvinnulíf er ótvírætt. Framtíðarflugvöllur í Vatnsmýri er eitt stærsta atvinnu- og samgöngumál Reykvíkinga.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira