Skoðun

Smart að vera umhverfisvæn

Ingibjörg Gréta Gísladóttir skrifar
Öll fyrirtæki skilja eftir sig rusl af einhverjum toga, hvort sem um er að ræða áþreifanlegt í tunnu eða óáþreifanlegt út í andrúmsloftið, nema hvort tveggja sé.

Það sem skilur á milli góðs reksturs og hins sem er miður vel rekinn, er hvernig unnið er með þennan úrgang. Er hann endurnýttur, er hann markvisst minnkaður eða er skipt yfir í umhverfisvænni aðferðir, vörur og þjónustu?

Aprílmánuður er tileinkaður grænum og umhverfisvænum aðgerðum sem ganga út á að vekja fyrirtæki og einstaklinga til umhugsunar um hvernig við getum minnkað sóun og skilað umhverfinu í jafngóðu eða betra ástandi en það var í þegar við tókum við því.

Það þarf nefnilega oft svo lítið til. Mörg fyrirtæki eru til dæmis farin að loka prenturum sínum svo starfsmenn þurfa að fara að prentaranum og slá inn lykilorð til að prenta út gögn. Önnur eru búin að taka ruslafötur frá borðum starfsmanna sinna og setja í staðinn upp aðgreindar tunnur fyrir mismunandi úrgang til endurvinnslu á einn stað. Enn önnur eru farin að mæla allan rekstur hjá sér til að geta losað sig við þau tæki sem nota mest rafmagn og fá önnur hagkvæmari í staðinn.

Gott fyrir budduna

Eitt hótel hér í borg fór til að mynda markvisst í að ná niður orkureikningnum með því að finna út hagkvæmustu hitastillinguna á herbergjunum hjá sér bæði þegar þau voru í notkun og ekki. Mörg fyrirtæki hafa farið í að einfalda pöntunarkerfi þannig að bæði tími og peningar sparast, sem virkilega skiptir máli þegar það safnast saman á ársgrundvelli.

Með því að skipta út bensínhákum fyrir metan-, rafmagns- eða aðra umhverfisvænni bíla spara fyrirtæki milljónir í rekstri á ársgrundvelli og slíkur sparnaður í rekstri skilar betri afkomu. 

Það er nefnilega ekki fyrr en það kemur að afkomu fyrirtækjanna að umhverfisvæn hugsun í rekstri fer að vera álitlegur kostur.

Snýst um hagkvæmni

Að minnka rusl og annan úrgang snýst um hagkvæmni. Minni úrgangur þýðir hagkvæmari neysla og endurnýting sem og endurvinnsla óhjákvæmilegs úrgangs.

Á vefsíðunni Waste Online í Bretlandi er vakin athygli á því að ef öll bresk fyrirtæki myndu spara eitt hefti á dag yrði málmhaugurinn 72 tonnum minni á ári. Þar segir einnig að hver Breti hendi sem nemur sjö sinnum þyngd sinni ár hvert eða um 500 kg. Hverjar þessar tölur eru á Íslandi skal ósagt látið. En ætla má að þær séu í svipuðu hlutfalli.

Það er smart að vera umhverfisvænn því það er gott fyrir heilsuna, umhverfið og budduna.


Tengdar fréttir

Grænn apríl fer af stað

Grænn apríl er umhverfisátak sem hefur vaxið og þróast undanfarin ár og er nú ýtt úr vör í þriðja sinn. Því er fyrst og fremst beint að því að auka meðvitund fólks um hvað það getur gert til að draga úr umhverfisáhrifum.

Safna fyrir skógum í Skorradal og á Austurlandi

Almenningur er hvattur til að leggja sitt af mörkum í verkefninu Aprílskógar. Safnað er fyrir Bændaskóga á Austurlandi, til að grisja lerkiskóginn, og plöntun nýrra trjáa í Skorradal. Aprílskógar eru söfnunarverkefni átaksins Græns Apríl.




Skoðun

Sjá meira


×