Skoðun

Frjáls er fjötralaus maður

Margrét Ósk Marínósdóttir skrifar
Vegna þeirrar umræðu sem hefur verið í samfélaginu undanfarið um hið margumrædda ferðafrelsi og nýtt náttúruverndarfrumvarp sem nú liggur fyrir Alþingi, langar greinarhöfund að fá svör við nokkrum mikilvægum spurningum.

Fyrst ber að nefna hvernig háttvirtur umhverfisráðherra hefur hugsað sér að tryggja aðgengi fatlaðra að náttúru Íslands í samræmi við 9. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur undirritað en þar stendur: „Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, …bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem felast m.a. í því að staðreyna og ryðja úr vegi hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi …”

Í nýju lögunum um náttúruvernd segir meðal annars í 31. gr. í 5. kafla: „Umhverfisstofnun er einnig heimilt að veita undanþágur vegna annarra sérstakra aðstæðna og skal ráðherra í reglugerð samkvæmt grein þessari kveða á um nánari skilyrði fyrir veitingu þeirra. Í þeim tilvikum sem heimild er til aksturs utan vega er ökumanni skylt að gæta sérstakrar varkárni og forðast að valda náttúruspjöllum.”

Stendur til að fatlaðir falli undir þessa skilgreiningu? Ef svo er hvernig er þá útfærslan á því hugsuð? Hvað þarf að liggja að baki til að slík undanþága fáist? Þarf viðkomandi að vera 75% öryrki eða þarf að liggja fyrir stæðiskort fatlaðra, þarf að skila inn örorkumati eða jafnvel læknisvottorði? Hve langan tíma tekur slíkt ferli í stjórnsýslunni og hvað ef ferðaáætlunin breytist skyndilega? Þarf þá að fara í gegnum nýtt umsóknarferli? Gildir undanþágan þá fyrir eina ferð eða ef einstaklingur hefur fengið einu sinni undanþágu gildir hún þá fyrir árið eða jafnvel lengur? Er leyfið bundið þessum eina einstaklingi eða er leyfið gefið út á vélknúna ökutækið? Hvað þá með þá gullnu reglu sem í hávegum er höfð að ekki skuli ferðast einbíla um hálendið?

Það skal þó skýrt tekið fram að ALLS EKKI er átt við að fatlaðir ætlist til að komast allt og alls staðar. Við vitum öll að það er ógjörningur, heldur er krafan sú að hægt verði að aka um áreyrar, sandfjörur og sandfláka þar sem náttúran sjálf, sjór, vatn og vindar eyða förunum jafnóðum og slóða sem nú þegar eru til og eknir hafa verið áratugum saman. Hér er ekki átt við að fá leyfi til utanvegaaksturs. Það er full sátt fyrir því að utanvegaakstur er með öllu óásættanlegur.

Eins leikur forvitni á að vita hvað háttvirtur umhverfisráðherra á við með orðinu „hreyfihamlaður”? Er þá átt við fatlaða almennt? Skilgreining á orðinu fatlaður í íslensku orðabókinni er „fatlaður: sem ber sýnileg merki sjúkdóms eða meiðsla”. Því eru ekki allir fatlaðir skilgreindir sem hreyfihamlaðir, heldur geta verið einstaklingar sem glíma við alvarlega sjúkdóma, t.d. eins og fólk með alvarlega öndunarfærissjúkdóma.

Sú almenna umfjöllun sem átt hefur sér stað um málið hefur oft litast af viðhorfum þeirra sem ekki eru tilbúnir að setja sig í spor annarra. Verum því minnug þess að ekkert okkar er með tryggingu fyrir því að tilheyra aldrei þeim hópi, sem, ef lögum um náttúruvernd ná fram að ganga, þurfa að sætta sig við skert ferðafrelsi.

Horfðu lesandi góður í eigin barm og veltu því fyrir þér hvort þú ert tilbúin/n að sætta þig við skert ferðafrelsi og sitja heima?




Skoðun

Sjá meira


×