Lífið

Endanleg útgáfa Ég á líf enn óákveðin

Elín Albertsdóttir skrifar
Örlygur Smári. Mynd/Valli
Örlygur Smári. Mynd/Valli

Ekki nóg með að lagahöfundurinn Örlygur Smári sé á fullu blússi í lokaundirbúningi fyrir lagið Ég á líf sem Eyþór Ingi flytur í Eurovision-keppninni í Malmö í maí, heldur gerði sigur söngkonunnar Heru Bjarkar í Síle það að verkum að allt í einu varð allt vitlaust að gera hjá Örlygi, sem annars gegnir starfi sölumanns hjá Nýherja.

Sigurlagið Because You Can er samstarfsverkefni þeirra Christinu Schilling, Camillu Gottschalck, Jonas Gladnikoff, Heru Bjarkar og Örlygs Smára.

Hvernig kom samstarf ykkar til?
"Við Hera höfum unnið mikið saman. Síðast með laginu Je ne sais quoi sem flutt var fyrir Ísland í Eurovision árið 2010. Árið áður tók Hera þátt í dönsku undankeppni Eurovision og hafnaði í öðru sæti með lagið Someday. Það lag sömdu sömu höfundar og unnu síðan með okkur Because you can," útskýrir Örlygur Smári.

"Eftir sigurinn hér heima 2010 ákváðum við Hera að vinna saman plötu en um svipað leyti komu þær Christina og Camilla hingað til lands og kíktu þá í stúdíóið mitt. Þetta lag varð til og var sett á plötuna. Síðan ákvað Hera að senda lagið í keppnina í Síle," segir Örlygur Smári og bætir við að sigurinn hafi vissulega áhrif á frekara samstarf þeirra Heru.

Nýr og spennandi markaður
"Það hefur opnast góður möguleiki á að koma fleiri lögum á suðurameríska markaðinn. Bæði lögum sem við höfum samið nú þegar og nýjum lögum. Þarna er gríðarlega stór og spennandi markaður. Ég hef gaman af allri góðri tónlist og þar er meðtalin svokölluð latín-músik. Hins vegar eru þessar þjóðir eins og við, opnar fyrir alþjóðlegri tónlist. Keppnin skiptist í tvo riðla, annars vegar svæðisbundna þjóðlagatónlist og hins vegar alþjóðlega popptónlist."

Þegar Örlygur Smári er spurður um verðlaunaféð, hvort hann verði ríkur af þessari velgengni, svarar hann. "Nei, því miður. Verðlaunin fóru beint til plötuútgáfunnar í Síle. Það hjálpar henni að markaðssetja okkur á þessu svæði og við fáum síðan tekjur af því þegar lagið er spilað. Listamennirnir fá oft minnstan hlut," segir hann.

"Ég hef verið mjög upptekinn undanfarna tvo mánuði, bæði vegna Eurovision og síðan ævintýris Heru í Síle. "Við Hera höfum hist eftir að hún kom heim og erum að velta fyrir okkur þeim tækifærum sem upp eru komin. Við þurfum að semja fleiri lög og texta fyrir þennan nýja markað og púðrið fer allt í það hjá mér þessa stundina."


Hokinn af reynslu
Örlygur Smári hefur átt velgengni að fagna með lögin sín. Hann hefur fjórum sinnum unnið Söngvakeppni Sjónvarpsins. Fyrir utan þau tvö lög sem þegar hafa verið nefnd átti hann lagið Tell Me árið 2000 og This is My Life árið 2008. Árið 2006 og 2009 átti hann einnig lög í undankeppninni sem hlutu þó ekki náð fyrir eyrum dómara landsins í gegnum símakosningu. Hann er sjálflærður í tónlist, segist glamra á gítar og píanó en kann ekki að lesa nótur.

Örlygur Smári hefur mikla reynslu í þátttöku í Eurovision-keppninni. "Jú, ég veit nákvæmlega hvernig þarf að undirbúa atriðið og þessa dagana erum við á fullu í því. Gaman er að segja frá því að til er texti við lagið á alls fjórum tungumálum, frönsku, íslensku, ensku og spænsku. Á meðan við höfum ekki tekið endanlega ákvörðun með lokaútgáfuna er rétt að segja sem minnst um hana. Hins vegar styttist í að lagið heyrist opinberlega í endanlegri útgáfu," segir Örlygur Smári.

"Við leggjum áherslu á að atriðið verði áhrifamikið."Sýningargluggi tónlistar

Örlygur Smári segist vera farinn að hlakka mikið til að fara til Malmö í vor. Hann er altalandi á sænsku, enda alinn upp í Stokkhólmi sem barn og stundaði seinna nám í hljóðupptökum þar í landi.

"Það hefur alltaf verið mikið lagt í þessa keppni í Svíþjóð og ég fylgdist vel með henni sem barn og unglingur. Áhuginn hélt áfram eftir að ég kom heim. Keppninni er gert hátt undir höfði í Svíþjóð en ég hef aðeins fylgst með undankeppninni þar ytra núna sem er afar glæsileg. Ég hef mjög gaman að Eurovision eins og flest allir landsmenn," viðurkennir hann.

"Vinnan í kringum þetta er heilmikil en skemmtileg og fjölbreytt. Maður er ekki einungis að búa til lag heldur þarf að hugsa um atriði eins og framkomu, búninga, kvikmyndatöku og markaðssetningu. Á stuttum tíma þarf maður þess vegna að velta mörgum hlutum fyrir sér en síðan er alltaf einstaklega ánægjulegt að fara út með skemmtilegum hópi fólks. Vegna þess hversu oft ég hef verið með í keppninni eru margir sem tengjast henni orðnir kunningjar mínir og vinir. Þennan vettvang get ég notað eins og aðra sýningarglugga fyrir sköpun mína sem annars lægi ofan í skúffu þar til einhver flytjandi væri fundinn. Um miðjan mars þurfa öll atriði að vera klár frá okkur. Síðan tekur við forvinna hjá þeim aðilum sem standa að keppninni."

Örlygur Smári er líka fjölskyldumaður. Kona hans, Svava Gunnarsdóttir, heldur úti mjög vinsælu matarbloggi á netinu. Hér eru þau með börnum sínum, tvíburunum Jakobi Þór og Gunnari Berg og dótturinni, Malínu. Mynd/Valli

Ljúfmeti og lekkerheit
Örlygur Smári rak hljóðverið Poppvélina í fullu starfi í mörg ár. Nú fara frístundirnar meira í stúdíóvinnuna. "Vinna hjá Nýherja er töluvert frábrugðin því sem ég gerði áður en ég var orðinn leiður á einverunni sem fylgdi því að vinna í stúdíói. Mér fannst gott að komast í þann félagsskap sem er á stórum vinnustað. Nú get ég leyft mér að vinna einungis að því sem mér finnst áhugavert án þess að hafa áhyggjur af því að eiga fyrir salti í grautinn," segir kappinn.

Kona Örlygs Smára er Svava Gunnarsdóttir en hún starfar á lögfræðistofu. Svava heldur úti vinsælu matarbloggi á netinu sem kallast Ljúfmeti og lekkerheit þar sem ýmsar girnilegar matar- og bakstursuppskriftir birtast. Þau eiga fimmtán ára dóttur og tíu ára tvíburasyni. "Svava er meistarakokkur og sífellt að koma mér á óvart með nýjum uppskriftum," segir Örlygur og bætir því við að það sé alltaf eitthvað gott á matarborðinu. "Ég er samt meira í því að borða matinn en að búa hann til."

Örlygur er hlaupari á milli þess sem hann tekur myndir og semur lög. "Ég er áhugaljósmyndari og hef mjög gaman af því að taka myndir. Ég og annar sonur minn erum duglegir að hlaupa saman og reynum að fara út nokkrum sinnum í viku. Mér finnst hlaupið skemmtilegt og ánægjulegt að við feðgarnir séum saman í þessu. Við hlaupum mest í hverfinu okkar í Kópavogi en tökum líka þátt í almenningshlaupum og förum þá 10 kílómetrana. Það er fínt að hlusta á tónlist á meðan ég hleyp. Þar fyrir utan nýti ég frístundir til að semja lög eða útsetja fyrir aðra, sit þá gjarnan við píanóið og nota tölvuna mikið. Síðan þeyti ég skífum á árshátíðum, þorrablótum, afmælum eða brúðkaupum en sú vinna kemur oft í törnum."

Allt fyrir ástina
Þegar Örlygur er spurður um uppáhaldslag úr eigin lagasafni verður fátt um svör.

"Þetta er erfið spurning. Ég held að það sé ekkert eitt frekar en annað. Mér þykir þó vænt um lagið Allt fyrir ástina sem ég gerði fyrir Pál Óskar. Það kom mér aftur í bransann eftir langa dvöl í Svíþjóð. Ég var að leita að samstarfsfólki þegar ég kynntist Palla og við höfum átt mjög gott samstarf sem er enn í gangi.

Það er gríðarlega margt að gerast þessa dagana og ég er með mörg járn í eldinum. Það er hins vegar erfitt fyrir mig að tjá mig um einstök ný lög á meðan flytjandinn hefur ekki gert það. Hann ræður markaðssetningunni. Ég er sömuleiðis á fullu að skoða hálfkláruð og kláruð lög sem hafa legið til hliðar með markaðinn í Suður-Ameríku í huga. Þar eru svakaleg tækifæri fyrir mig. Um helgina ætla ég hins vegar að vera plötusnúður," segir lagakóngurinn Örlygur Smári.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira