Skoðun

Mannasiðir á vinnumarkaði

Stefán Einar Stefánsson skrifar
Í ágúst síðastliðnum hóf VR að nýju að þjónusta atvinnulausa félagsmenn sína. Felst sú þjónusta í vinnumiðlun, náms- og starfsráðgjöf og síðast en ekki síst í handleiðslu atvinnuleitenda í gegnum refilstigu bótakerfisins með fræðslu um réttindi og skyldur þeirra innan þess. Markmið þessarar þjónustu er fyrst og fremst að efla hvern og einn einstakling þannig að hann eigi meiri möguleika til virkrar þátttöku á vinnumarkaði.

Þjónustan hefur mælst vel fyrir en verkefnið er sannarlega mikið að vöxtum. Merkilegt hefur verið fyrir VR að fá meiri innsýn í stöðu þeirra félagsmanna sinna sem orðið hafa fyrir atvinnumissi. Ljóst er að margir hafa átt um sárt að binda í þeim efnum á síðustu árum og ekki ofsögum sagt að reynt hafi mjög á þolrifin hjá mörgum í því tilliti. Ástæða er til að taka ofan fyrir þeim sem ekki missa móðinn þrátt fyrir atvinnumissi og oft og tíðum árangurslausa atvinnuleit um lengri eða skemmri tíma.

Umsóknum ekki svarað

Síðustu misserin hafa fá störf verið í boði. Mikið atvinnuleysi samfara þeirri staðreynd veldur því að fjöldinn allur af umsóknum berst um hvert það starf sem auglýst er. Í því ástandi ber alltof mikið á því að umsóknum sé svarað seint og illa – sé þeim yfir höfuð svarað. Eðlilega geta nokkrar vikur farið í yfirferð og meðhöndlun umsókna og þá getur lokaferill ráðningar einnig tekið drjúgan tíma. Hins vegar er með öllu óþolandi ef umsækjendur fá ekki svar við umsókn sinni, óháð því hvort svarið hafi jákvæð formerki eða neikvæð.

Svörunarleysið getur valdið atvinnuleitendum miklu hugarangri og við hjá VR tökum heilshugar undir það með mörgum okkar félagsmanna að það feli hreinlega í sér lítilsvirðingu gagnvart þeim einstaklingum sem í hlut eiga. Reynsla þeirra sérfræðinga sem starfa hjá VR að málefnum atvinnuleitenda bendir til að þessi framkoma sé algengari hér en í nágrannalöndunum og því má jafnvel segja að svörunarleysið sé þjóðlegur ósiður. Þessi plagsiður atvinnurekenda er hins vegar mikill óþarfi og þeir sem eru í leit að nýju starfsfólki þurfa litla sem enga vinnu að leggja á sig til þess að kippa þessum málum í liðinn.

Þessi litla ábending felur ekki í sér gagnrýni á alla atvinnurekendur, því fer fjarri, og margir vinna faglega úr þeim umsóknum sem þeim berast. Þeir taki þessa ábendingu hins vegar til sín sem ástæðu hafa til. Það kostar ekkert að fylgja sjálfsögðum mannasiðum – ekki einu sinni á vinnumarkaði.




Skoðun

Sjá meira


×