Innlent

Forsendur yfirtöku Hörpu brostnar

Þórður Snær Júlíusson skrifar
Sú ákvörðun ríkis og borgar að taka yfir byggingu og eignarhald Hörpu var mjög umdeild. Pétur H. Blöndal alþingismaður sagði við upphaf þingfundar á Alþingi í gær, vegna frétta Fréttablaðsins af málefnum Hörpu, að "draumur fárra er að breytast í martröð margra“.
Sú ákvörðun ríkis og borgar að taka yfir byggingu og eignarhald Hörpu var mjög umdeild. Pétur H. Blöndal alþingismaður sagði við upphaf þingfundar á Alþingi í gær, vegna frétta Fréttablaðsins af málefnum Hörpu, að "draumur fárra er að breytast í martröð margra“. fréttablaðið/valli

Forsendurnar fyrir yfirtöku ríkissjóðs og Reykjavíkurborgar á Hörpu eru brostnar. Í gær samþykkti borgarráð tillögu um fjármögnun Hörpu sem felur í sér að um 800 milljóna króna eigendaskuld verður breytt í nýtt hlutafé og 1.164 milljóna króna viðbótarframlag til að fjármagna rekstur Hörpu út árið 2016. 640 milljónir króna af þeirri upphæð eru bein aukin framlög eigendanna.

Í greinargerð með tillögunni segir að „[v]alkosturinn við að fara ekki í ofangreindar aðgerðir er sá að fyrirtækið Harpan komist fljótlega í þrot og starfsemin hætti með talsverðum tilkostnaði fyrir eigendur".
Það voru Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, sem samþykktu yfirtöku ríkis og borgar á Hörpu.

Ekki aukin framlög
Ríki og borg samþykktu að taka yfir og klára Hörpuna snemma árs 2009. Tekið var sambankalán hjá íslensku bönkunum til að fjármagna yfirtökuna. Í skriflegu svari Katrínar Jakobsdóttur við fyrirspurn þingmannsins Marðar Árnasonar um Hörpu, sem birt var í mars 2011, kom mjög skýrt fram að ekki ætti að setja meira fé en þar var umsamið í Hörpu.

Þar sagði orðrétt að „forsendur fyrir yfirtöku verkefnisins voru þær að ekki þyrftu að koma til önnur framlög frá ríki og borg en gert var ráð fyrir í samningi Austurhafnar-TR og Portusar frá 9. mars 2006".
Það framlag fylgir vísitölu og er áætlað 1.045 milljónir króna á þessu ári. Sama framlag þurfa eigendur að greiða í 34 ár til viðbótar.

Veittu brúarlán
Í lok árs 2011 leituðu forsvarsmenn Hörpu-samstæðunnar til eigenda sinna eftir brúarláni, þar sem upphaflegt sambankalán dugði ekki fyrir stofnkostnaði. Það stendur í dag í 794 milljónum króna. Lánið átti að endurgreiðast þegar Harpa gæfi út skuldabréfaflokk, og í síðasta lagi í desember 2012. Landsbankinn, sem er langstærsti lánveitandinn í sambankaláninu, fékk umsjón með skuldabréfaútboðinu og sölutryggði það. Ekkert bólaði hins vegar á henni á síðasta ári.

Þann 3. ágúst 2012 gáfu eigendur Hörpu út yfirlýsingu þar sem fram kom að rekstrarafkoma Hörpu yrði neikvæð um 407 milljónir króna það árið. Nú, nokkrum mánuðum síðar, er ljóst að tekjur voru ofáætlaðar um 82 milljón króna og gjöld vanáætluð um tíu milljónir króna. Því varð tap Hörpu vegna síðasta árs 498 milljónir króna, eða rúmum fimmtungi meira en reiknað var með um mitt árið. Þetta tap var fjármagnað með yfirdrætti.

Útgáfan loks kláruð
Í greinargerð sem lögð var fyrir borgarráð í síðustu viku kemur fram að nú hafi endurfjármögnun loks verið „tryggð með samkomulagi við Landsbankann sem mun tryggja fulla fjármögnun stofnkostnaðar með sölu skuldabréfa á hagkvæmum kjörum. Um leið verður tryggð heildarfjármögnun verkefnisins[…] Miðað er við að frá þessari fjármögnun verði gengið 14. febrúar". Það er á morgun.

Af þeim 18,5 milljörðum króna sem útgáfan á að skila munu 16,5 milljarðar króna fara í að endurfjármagna sambankalán vegna byggingar hússins, 500 milljónir króna fara í að greiða upp skammtímalán sem veitt var í desember 2012 til að klára uppgjör við verk taka, 525 milljónir króna fara í að greiða yfirdrátt vegna fjármögnunar á taprekstri síðasta árs og 272 milljónir króna eiga að fara í að fjármagna „tekjuskapandi framkvæmdir" í húsinu á árinu 2013. Þá verða 311 milljónir króna teknar að láni til að fjármagna áætlaðan halla fram til ársins 2016 sem framlag ríkis og borgar nær ekki að brúa.

Deilt um fasteignagjöld

Í þeirri áætlun sem lá til grundvallar ákvörðun ríkis og Reykjavíkurborgar um að yfirtaka Hörpu snemma árs 2009 voru fasteignagjöld vegna hússins áætluð 147 milljónir króna. Uppreiknuð á núverandi verðlag er sú upphæð 182 milljónir króna. Álögð fasteignagjöld, sem renna til Reykjavíkurborgar, eru hins vegar 353 milljónir króna og mismunurinn því 155 milljónir króna, eða fimm milljónum króna lægri en samanlagt beint árlegt framlag ríkis og borgar til verkefnisins. Árlegt beint framlag borgarinnar er 73,6 milljónir króna og í greinargerðinni segir að ef hún samþykki tillöguna sé „borgin þrátt fyrir það að leggja verkefninu til nettó um 81 mkr. minna nú en upphaflega var gert ráð fyrir við yfirtökuna". Alveg ljóst er þó að ríkið greiðir meira en upphaflega var lagt upp með.

Stjórnendur Hörpu eru þeirrar skoðunar að fasteignagjöldin séu of há og hafa stefnt málinu fyrir dóm. Ekki er búist við niðurstöðu í málinu fyrr en á næsta ári.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.