Innlent

Kanna hvort símar Alþingis voru hleraðir

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sérfræðingar á vegum Alþingis rannsaka nú hvort símar þingsins hafi verið hleraðir um fjögurra mánaða skeið árin 2009 og 2010.

Á vefsíðunni Wired.com er greint frá því að Wikileaks hafi símaupptökur frá Alþingi undir höndum, en þar er að finna samtal sem sagt er vera á milli Julian Assange, forsprakka Wikileaks, og Chelsea Manning. Manning situr nú í fangelsi fyrir að hafa lekið gögnum bandaríkjahers til Wikileaks.

Í samtalinu er notast við nöfnin Nathaniel Frank og Nobody og dregur Wired.com þá ályktun að þar sé um að ræða Assange og Manning.

Áttunda mars 2010 talar Assange fyrst um að hafa komist yfir upptökur úr símum Alþingis Íslendinga. Síðar um daginn virðist hann hafa fengið staðfest að gögnin væru komin í hendur Wikileaks, en þá fullyrðir hann það við félaga sinn. 

Mjög alvarlegt ef satt reynist

Einar Kristinn Guðfinnsson, forseti Alþingis, segist líta meintar hleranir alvarlegum augum. Hann segir sérfræðinga á vegum Alþingis rannsaka málið í samstarfi við Póst - og fjarskiptastofnun. Fljótlega verði svo ákveðið hvort óskað verði eftir lögreglurannsókn.

Tenging við njósnatölvu?

Tímasetningar meintra hlerana vekja sérstaka athygli, en í febrúar 2010 fannst dularfull tölva á Alþingi. Grunur lék á að tölvan hafi verið sett upp í þeim tilgangi að brjótast inn í tölvukerfi þingmanna. Þá voru getgátur uppi um að tölvan dularfulla væri á vegum Wikileaks.

Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, gefur lítið fyrir þessar ásakanir og segir jafn fjarstæðukennt að tengja Wikileaks við njósatölvuna og gagnalekann hjá Vodafone. Þá segist hann ekki hafa heyrt um að Wikileaks hefði símaupptökur af Alþingi í fórum sínum.


Tengdar fréttir

Hlerun í Alþingi: „Grafalvarlegt ef satt reynist“

Í meintu samtali Julian Assange og Chelsea Manning árið 2010 segir Assange að Wikileaks búi yfir hljóðupptökum úr símum Alþingis sem nái yfir fjögurra mánaða skeið. Á Alþingi hafa ráðamenn ekki heyrt af málinu, en ef satt er, sé það grafalvarlegt:

Ísland mun bráðna

„Ég var að fá 800 blaðsíður af yfirheyrslugögnum og önnur 40 gígabit af gögnum varðandi einkavæðingu bankanna á Íslandi," telur vefsíðan Wired.com að Julian Assange hafi sagt í samtali við Chelsea Manning í mars 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×