Tónlist

Óvíst hvort Sóley fái nokkuð fyrir 14 milljón spilanir á Youtube

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sóley segir það ekki rétt að sá sem hafi sett myndbandið inn hafi grætt á því peninga.
Sóley segir það ekki rétt að sá sem hafi sett myndbandið inn hafi grætt á því peninga.
Lag tónlistarkonunnar Sóleyjar Stefánsdóttur, Pretty Face, hefur verið spilað rúmlega 14 milljón sinnum á Youtube frá því það var sett inn á myndbandaveituna árið 2011.

Gengið hafa sögur um að Sóley hafi ekki fengið krónu fyrir Youtube-spilun en að sá sem hafi sett myndbandið inn hafi grætt á tá og fingri.

„Þetta er aðeins flóknara en svo,“ segir Sóley í samtali við Vísi en útgefandi hennar er að hennar sögn að vinna í málinu. „Ég er búin að ræða þetta við fullt af fólki. Útgefandinn minn, sem er þýskt fyrirtæki sem á að sjá um þetta fyrir mig, segir að það sé mjög erfitt að fá pening fyrir svona. Það þarf til dæmis að vera með auglýsingu fyrir framan myndbandið, sem er ekki í mínu tilfelli. Það gæti verið að ég sé að fá einhver tvö sent á spilun eða eitthvað, og það fari inn í einhvers konar stefgjöld sem eru ekki tilgreind á skýrslu yfir hvað er verið að spila tónlistina mína um allan heim, en það er þá ekki mikill peningur.“

„Ógeðslega flókið“

Sóley segir Youtube með gríðarlegt magn lögfræðinga á sínum snærum og að þýsku rétthafasamtökin GEMA séu til dæmis ekki með samning við Youtube af því að þeir vilji ekki borga tónlistarmönnum fyrir spilun á síðunni. Þess vegna sé til dæmis ekki hægt að horfa á öll myndbönd á Youtube í Þýskalandi.

„Þetta er svo ógeðslega flókið að alltaf þegar ég spyr fæ ég bombu af upplýsingum. Það er eins og það séu allir jafn glærir í þessu, Youtube er svo nýtt,“ segir Sóley, sem virðist þó æsa sig lítið yfir málinu.

„Ef allir aðrir í heiminum sem eru með myndbönd á Youtube fá ekki neitt þá er mér alveg sama, en ef ég á rétt á einhverjum pening vil ég gjarnan fá hann,“ segir Sóley, sem heldur þó áfram að reyna að komast til botns í málinu. Hún segir plötufyrirtækið geta farið fram á að lagið verði tekið af síðunni en það hafi ekki þótt ástæða til þess ennþá.

„Þetta er auðvitað alveg geðveik auglýsing fyrir mig. Þetta blessaða lag átti nú ekki einu sinni að vera á plötunni, en tónleikaferðirnar sem ég er búin að fara í hafa gengið mjög vel og það held ég að sé mikið þessu að þakka.“

Notandinn óttaðist lögsókn

Sóley segir það ekki rétt að sá sem hafi sett myndbandið inn hafi grætt á því peninga. „Hann kallar sig „goldenpollen“. Þetta er einhver þýskur náungi og það er búið að hafa samband við hann og hann á ekki að vera að græða á þessu frekar en einhver annar. Í fyrsta skipti sem haft var samband við hann varð hann geðveikt stressaður og hélt að væri verið að fara í mál við sig. En ég held að útgefandinn sé með aðgang að myndbandinu núna.“

Sóley segir að Youtube þurfi að setja skýrari reglur um hvernig greiðslum sé háttað vegna myndbanda á síðunni. „Mér finnst alveg að þeir eigi að borga þessi stefgjöld og ef þeir eru að gera það er það flott, en eins og með Spotify og allt þetta löglega þar sem maður fær borgað en samt bara 25 sent á spilun eða eitthvað, þetta eru svolítið hlægilegar upphæðir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×