Innlent

Hildur vill í fyrsta sætið

Hjörtur Hjartarson skrifar

Hildur Sverrisdóttir hefur ákveðið að gefa kost á sér í fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar næsta vor. Hún segir það nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að boða nýja nálgun í borgarmálum.

Hildur er 35 ára lögmaður og hefur á kjörtímabilinu starfað í umhverfis og skipulagsráði borgarinnar auk þess sem hún tók sæti Gísla Marteins Baldurssonar í borgarstjórn í september. Hún vill stuðla að breytingum innan Sjálfstæðisflokksins.

„Ég tel nauðsynlegt að í Sjálfstæðisflokknum í dag í borgarmálum sé boðið upp á nýja nálgun. Í því felst meðal annars að hrósa pólitískum andstæðingum þegar þeir gera vel og taka þá þátt í því starfi í þágu borgarbúa og geta þannig staðið betur að vígi þegar þarf að gagnrýna það sem er alls ekki nógu vel gert.“

Hildur segir það afar mikilvægt að Sjálfstæðisflokkurinn verði í meirihluta í næstu borgarstjórn og að hún sé rétta manneskjan til að leiða flokkinn í þá átt.

„Ég hef til að mynda unnið mjög mikið og mjög vel með fólki úr öllum flokkum. Ég tel mig geta stuðlað að því að mynda meirihluta, að Sjálfstæðisflokkurinn verði í meirihluta á næsta kjörtímabili. Það er mjög aðkallandi og ég treysti mér til að leiða það nauðsynlega verkefni.“

Hildur segist ætla að leggja áherslu á borgarskipulag sem hún segir vera grunninn að betri borg. Hún telur að ef takast eigi að þétta byggð í Reykjavík sé nauðsynlegt að flugvöllurinn víki.

„Það að ætla að þétta byggð og horfa ekki til mikilvæga svæðisins í Vatnsmýrinni fer að mörgu leyti ekki saman. Að því leytinu til tel ég að finna ætti flugvellinum nýjan stað þar sem hann þjónustar alla landsmenn og engu öryggi er stefnt í voða.“

Hildur er fjórði frambjóðandinn sem sækist eftir fyrsta sætinu en auk hennar stefna Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Halldór Halldórsson og Júlíus Vífill Ingvarsson á að leiða flokkinn í borginni. Það vex Hildi hins vegar ekki í augum að takast á við þennan hóp um oddvitasætið. „Nei, ég er í stjórnmálum því ég tel að stjórnmálamenn eiga að tala mjög hátt og skýrt og gera allt sem þeir geta til þess að þeirra hugmyndir verði ofan á til að gera vel. Og þá gerir maður bara það sem þarf að gera til þess.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.