Innlent

Er sæstrengur ígildi olíufundar?

Svavar Hávarðsson skrifar
Yfirfall Hálslóns er kannski eitt besta dæmið um hina ótryggu vatnsorku, sem er með of lítið afhendingaröryggi fyrir iðnað á Íslandi, og gæti hentað í sölu á sæstreng. Það gæti í meðalvatnsári numið 2 TWst eða 2/5 af því sem gæti farið á sæstrenginn.
Yfirfall Hálslóns er kannski eitt besta dæmið um hina ótryggu vatnsorku, sem er með of lítið afhendingaröryggi fyrir iðnað á Íslandi, og gæti hentað í sölu á sæstreng. Það gæti í meðalvatnsári numið 2 TWst eða 2/5 af því sem gæti farið á sæstrenginn. Mynd/Þórhallur Árnason

Hafi Íslendingar staðið frammi fyrir stórum spurningum í viðskiptalegu tilliti í sögu sinni virðist sem nú liggi á borðinu sú stærsta af þeim öllum. Á að leggja sæstreng fyrir raforku á milli Íslands og Evrópu? Þessi spurning leiðir af sér aðrar jafnstórar. Hvaða áhrif mun sú framkvæmd hafa á íslenskt efnahagslíf, umhverfið og samfélagið í heild?

Ekki glænýtt
Hugmyndin er sprottin af gömlum merg en skaut aftur upp kollinum fyrir nokkrum árum í viðræðum Landsvirkjunar og breskra ráðamanna. Kostir sæstrengs höfðu verið metnir með tíu til fimmtán ára millibili, en aldrei hafði reynst tímabært að ganga lengra, aðallega af tveimur ástæðum. Raforkuverð í Evrópu var of lágt til að standa undir fjárfestingunni og tæknilega voru menn ekki komnir nægilega langt. Nú er hins vegar komin upp allt önnur staða en áður var. Orkuverð hækkar hratt og samfleytt og tæknihliðin er ekki lengur hindrun. Rauðar tölur eru orðnar svartar. Spurningin um sæstreng, hugsanlega kosti og galla, er því mun meira knýjandi en áður.

Alþingi sest yfir málið
Skýrsla ráðgjafarhóps um raforkustreng til Evrópu var lögð fyrir Alþingi í október, en í júní 2012 skipaði þáverandi iðnaðarráðherra, Oddný G. Harðardóttir, ráðgjafarhóp sem falið var það hlutverk að kanna nánar þann möguleika að leggja nefndan sæstreng.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sagði í tilefni þess að skýrslan var lögð fram að nauðsynlegt væri að fá fram ítarlega og greinargóða umræðu um verkefni af þessari stærðargráðu; kosti þess og galla og áhrif á íslenskt samfélag og efnahagslíf. Margir óvissuþættir fylgdu slíkri framkvæmd og frekari könnun á ýmsum atriðum yrði því að eiga sér stað áður en unnt yrði að taka ákvörðun um hvort æskilegt væri að fara í slíkt verkefni.

Meginniðurstaða ráðgjafarhópsins er einföld. Hópurinn telur rétt að kanna alla þætti verkefnisins hér innanlands um leið og leitað verði svara um möguleg rekstrar- og eignarhaldsmódel hjá viðsemjendum í Bretlandi. Á þessum grunni byggir hópurinn tillögur sínar til ráðherra. Hér skal haft í huga að allir nefndarmenn komust að samhljóða niðurstöðu en ráðgjafarhópurinn var skipaður breiðum hópi hagsmunaaðila; bæði hvað varðar orkunýtingu og umhverfisvernd.

Ragnheiður Elín vill að eftir umfjöllun þingsins ákvarði stjórnvöld næstu skref. Kostirnir eru þrír helstir í hennar huga: Fela starfshópi eða starfshópum að kanna ítarlegar einhverja afmarkaða þætti framkvæmdarinnar. Stjórnvöld hefji formlegar könnunarviðræður við mögulega samningsaðila um með hvaða hætti sala á íslenskri orku geti átt sér stað í gegnum sæstreng.
Það er þriðja og síðasta tillaga ráðherra sem veldur heilabrotum, og jafnvel hugarangri meðal þeirra sem vilja kanna alla möguleika til hlítar. Hún er að hægja á frekari könnun verkefnisins.

Mergurinn málsins
Sæstrengur fellur vel að stefnu Landsvirkjunar og fyrirtækið leiðir vinnuna við að skoða þennan möguleika. Hörður Arnarson forstjóri hefur ítrekað sagt að tenging við evrópska raforkumarkaði geti verið einstakt tækifæri fyrir Íslendinga til að hámarka afraksturinn af orkuauðlindunum. Jafnframt að ákvörðun um að leggja sæstreng sé í fyrsta lagi möguleg eftir nokkur ár og um hana verði að nást breið sátt í samfélaginu, sem byggi fyrst og síðast á upplýsingum.

Áhyggjur hagsmunaaðila liggja kannski helst í því að umræðan um verkefnið hér innanlands er neikvæð. Talað er um neikvæð áhrif á raforkuverð til heimila. Neikvæð áhrif á atvinnusköpun innanlands og ekki síst umhverfisáhrifin í þeim skilningi að fórna náttúrugæðum hér heima fyrir sölu rafmagns til Evrópu. Það er staðreynd að áhugi Breta, og Evrópu, er tilkominn vegna áherslu á að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa heima fyrir og vinna gegn mengun vegna útblásturs. Svo þarf að ræða hvort Íslendingar telji sér skylt að taka þátt í þeirri vinnu; hvernig og hvort við sem þjóð viljum leggja þessu hagsmunamáli lið.

Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs Landsvirkjunar, segir að jákvæðu hliðarnar frá sjónarhóli Landsvirkjunar séu margþættar. „Það átta sig ekki allir á því en raforka er af mismunandi tagi. Besta dæmi er yfirfall sem á sér stað í virkjunum Landsvirkjunar þegar vatnslón eru orðin full. Tíu til tuttugu prósent af árvatni renna í sjó fram engum til gagns. Landsvirkjun hefur eytt áratugum í að finna einhvern til að kaupa þessa ótryggu orku en það hefur ekki tekist.

Ástæðan er sú að á 20-30 ára fresti koma slæm vatnsár og enginn stóriðnaður vill kaupa orku sem er ekki 100% örugg,“ segir Björgvin og vísar til þess að allt að því 2/5 hlutar þeirrar orku sem gæti farið um sæstreng komi frá slíku yfirfalli. Magnið og verðmætin eru gríðarleg, enda er flutningsgeta sæstrengs metin á 700 til 1.100 megavött (MW). Þetta er orka sem er verðlaus í dag og nýtist aldrei til iðnaðaruppbyggingar hérlendis.


Grafík/Jónas Unnarsson - Svavar Hávarðsson

Einstök vara
Björgvin segir að raforka sé einstök vara. Gas-, kola- og kjarnorkuver eru grunnorkuframleiðendur sem geta ekki brugðist við breytingum á eftirspurn með stuttum fyrirvara – það getur t.d. tekið nokkra daga að breyta rafmagnsframleiðslu kjarnorkuvers. Mjög fáir kostir séu til sem geti brugðist við breytingum innan nokkurra klukkustunda eða jafnvel mínútna. Enn fremur er jafn nauðsynlegt að hemja raforkuframleiðslu eins og það er að framleiða rafmagn. Ef of mikil orka er afhent inn á raforkukerfi þá fara rafmagnstæki að eyðileggjast og ljós að springa. 

„Langhagstæðasta leiðin, sem við þekkjum í dag til að bregðast við þessum breytileika, er að nýta vatnsaflið. Þetta gerir íslensku orkuna svo verðmæta sem raun ber vitni því það er svo auðvelt að stýra því hvenær hún er afhent. Á Íslandi seljum við aðallega svokallaða grunnorku sem er jöfn alla daga ársins. Stýranleg vatnsorka er annað dæmi um hvernig hægt er að gera meiri verðmæti úr auðlindum landsins. Þetta eru jákvæðar hliðar þess að flytja raforku um sæstreng og við þurfum að skoða betur hvaða tekjur þetta getur skapað fyrir Ísland. Það verður engin ákvörðun tekin um sæstreng næstu tvö til þrjú ár en á þeim tíma viljum við afla upplýsinga svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um framhaldið,“ segir Björgvin.

Fyrirtæki og heimili
Björgvin segir að ýmsar efasemdir séu á lofti, t.d. að ótækt sé að íslenskt rafmagn knýi álver í Bretlandi. „Það kemur ekki til greina. Ástæðan er sú að ef strengurinn bilar, sem er raunverulegur möguleiki, þá getur tekið nokkrar vikur að gera við hann. Álver þolir orkufall í þrjár til fjórar klukkustundir. Orkufrekur iðnaður sem þarf 100% trausta grunnorku mun því áfram koma til Íslands þar sem sæstrengur getur ekki tryggt honum það afhendingaröryggi sem þarf.“

Nú virðist minni ástæða til að hafa áhyggjur af stórhækkuðu orkuverði til heimila. Heitt vatn kyndir rúmlega 90% heimila á Íslandi sem er einstakt. Í Noregi er til dæmis mun stærra hlutfall með rafkyndingu en íslensk heimili nýta aðeins fimm prósent raforkunnar sem er unnin hérlendis.

Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði og efnahagsráðgjafi Gamma, vann skýrslu um áhrif sæstrengs á afkomu íslenskra heimila. Niðurstaða hans var að verð til heimila yrði áfram lágt og jafnvel óbreytt. Er þar vísað til þess að stjórnvöldum er í lófa lagið að niðurgreiða rafmagn til þeirra um það bil níu þúsund heimila sem kynda með rafmagni. Eins segir Ásgeir það auðvelt að endurdreifa hagnaði orkufyrirtækja til heimila; til dæmis mætti tryggja óbreytt raforkuverð, lækka skatta eða greiða þeim út arð í einhverju öðru formi.

Hver borgar?
Ein af stóru spurningunum er varða raforkustrenginn er hver stendur undir þessari risafjárfestingu. Stutta svarið hlýtur að vera að erlendir aðilar verði að koma með fjármagnið til framkvæmda. Það er vandséð að Ísland geti staðið undir því eitt og sér. Það hlýtur hins vegar að vera aðalhagsmunamálið að ávinningurinn falli að sem stærstu leyti Íslendingum í skaut.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands bendir á að þó svo sé þurfi að ráðast í verulegar fjárfestingar innanlands; í virkjunum, umbreytistöðvum og ekki síst í flutningskerfinu sem þarf mikla yfirhalningu eigi hugmyndirnar að verða að veruleika.
Pétur Stefánsson, framkvæmdastjóri UK Trade & Investment á Íslandi, segir Breta tilbúna til samstarfs og reiðubúna til að verja umtalsverðu fé til rannsókna.

„Ég veit að langstærsti hluti þessarar fjárfestingar verður erlend. Menn vilja samt hafa íslenska aðkomu að því til þess að tryggja að hagsmunir Íslendinga séu að þetta sé í lagi. Þá má ímynda sér tryggingu fyrir því að það sé ekki pólitísk ákvörðun að skrúfa fyrir rafmagnsflæðið. Annars staðar er algengt að skiptingin sé 50/50, t.d. þar sem National Grid [breska Landsnet] hefur tengst Hollandi (TenneT). En þessi netverk eru mjög sterk fjárhagslega og vitað mál að Landsnet á enga möguleika á að fjárfesta fyrir 200 milljarða eða þeim mun meira í helmingaskiptafjármögnun á sæstreng. Menn gera sér engar grillur um slíkt. En áður en að slíku kemur þarf pólitíska ákvörðun um framhaldið og þá fyrst fara menn að tala um fjárfestingar.“

Pétur segir að margir fjárfestar komi til greina. National Grid kemur til greina, enda risafyrirtæki. Það gæti líka verið að Landsnet og National Grid vildu aðeins vera rekstraraðilinn en þriðji aðili kæmi inn með fjármagnið til að borga framkvæmdirnar.
„Það kemur í ljós ef og þegar menn bjóða út verkefnið á grunni þess að það sé hagkvæmt. En það eru sannarlega til aðilar í heiminum sem eru boðnir og búnir til að fjármagna svona framkvæmd, enda væri um stöðuga ávöxtun til langs tíma að ræða. Svona verkefni eru til dæmis spennandi fyrir lífeyrissjóði sem eru að leita að slíkri ávöxtun í takti við skyldur við sína umbjóðendur. En þetta er verkefni sem mun kosta um mörg hundruð milljarða. Því er flækjustigið afar mikið,“ segir Pétur.

Lykilspurning
Helsta spurning þeirra sem bera náttúruna fyrir brjósti er hvort sæstrengur þýði ekki stórfelldar virkjunarframkvæmdir.
„Við skulum vera alveg heiðarleg með að það þyrfti að virkja en hversu mikið er of snemmt að segja,“ segir Björgvin. „Þetta er hvergi nærri því magni sem fólk gæti haft á tilfinningunni. Meirihluti orkunnar sem færi á strenginn getur komið úr núverandi virkjunum, með stækkunum og bættri nýtingu vatnsorkunnar og svo opnast tækifæri fyrir smáar bændavirkjanir og vindmyllur sem geta ekki staðið undir stóriðnaði hérlendis. Ákvörðun um hvað á að virkja er sjálfstæð ákvörðun óháð sæstreng og þar verður að líta til Rammaáætlunar og þá orkukosti sem eru í nýtingarflokki. Og umræðan um umhverfismál er mjög mikilvæg og þarf að fara fram jafnhliða öðru. Landsvirkjun þarf leyfi til þess að skoða þetta nánar og í framhaldinu kynna þjóðinni þetta í smáatriðum þegar þau liggja fyrir,“ segir Björgvin og nefnir eina af tillögum ráðgjafahópsins um að Landsnet fái heimild til að hefja viðræður, í samstarfi við Landsvirkjun og eftir atvikum aðra raforkuframleiðendur, við viðeigandi aðila í Bretlandi. Meðal annars við bresku orkustofnunina Ofgem um tengingu flutningskerfanna, viðskiptalíkan og eignarhald sæstrengs. Einnig að fyrirtækin kanni leiðir til fjármögnunar á undirbúningsrannsóknum og hugi að hugsanlegu samstarfsfyrirkomulagi vegna sæstrengsins.

„Engar skuldbindingar munu eiga sér stað fyrr en eftir slíkar viðræður og ítarlega kynningu fyrir Íslendingum á niðurstöðum þeirra. Þær gætu legið fyrir í fyrsta lagi eftir tvö til þrjú ár,“ segir Björgvin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.