Innlent

Hamingjuhádegi í Ráðhúsinu: "Ekki taka lífinu of alvarlega"

Hrund Þórsdóttir skrifar
Gestir hamingjuhádegis voru óhræddir við að hrista sig og dansa í dag.
Gestir hamingjuhádegis voru óhræddir við að hrista sig og dansa í dag.

Reykjavíkurborg og Hamingjuhúsið ætla að bjóða borgarbúum í hamingjuhádegi í Tjarnarsal Ráðhússins alla föstudaga í september. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá og eins og Eddu Björgvins, sem flutti stutt erindi í dag, varð á orði, er ætlunin að kenna fólki að komast í vímu á löglegan hátt.

„Við í Hamingjuhúsinu erum að reyna að koma af stað hamingjuhreyfingu og viljum að allir vinni í því að auka hamingjuhormónabúskapinn og hlaða hamingjubatteríin,“ segir Herdís Pála Pálsdóttir, markþjálfi og fyrirlesari og Margrét Leifsdóttir, heilsuarkitekt, bætir við: „Hamingjuhúsið er hópur af konum sem hafa svipaða sýn á lífið og eru að auka sína eigin hamingju. Þegar maður er að auka sína eigin hamingju er mjög gott að fá aðra með sér í lið því það er liður í að auka eigin hamingju.,“ segir hún.

 Í dag var boðið upp á dans og söng og leik- og söngkonan Bryndís Ásmundsdóttir smitaði innilegri lífsgleði til viðstaddra. Jón Gnarr borgarstjóri flutti hugvekju um hamingjuna og endaði á mikilli speki. „Ekki taka lífinu of alvarlega, lífið er allt of alvarlegt til þess,“ sagði Jón.

Þær Herdís og Margrét vonast eftir góðri þátttöku og hvetja vinnustaði til að standa fyrir sínum eigin hamingjustundum. „Við vonumst til að fá sem flesta. Þetta er auðvelt, þú þarft ekki að kunna neitt eða gera neitt, bara koma hingað til að njóta. Svo kostar þetta ekki neitt,“ segir Herdís.

Í lok dagskrár dönsuðu viðstaddir út úr Ráðhúsinu með tilþrifum, eins og sjá má í meðfylgjandi frétt.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.