Fótbolti

Gunnleifur: Vorum frábærir í kvöld og eigum góðan séns

Stefán Árni Pálsson skrifar
„Við erum mjög svekktir með hvernig þetta endaði“ segir Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, í samtali við Vísi.

Breiðablik tapaði 1-0 fyrir Aktobe í þriðju umferð forkeppni Evrópudeildar karla í knattspyrnu en um var að ræða fyrri leik liðanna.

Þau mætast aftur fimmtudaginn 8. ágúst á Laugardalsvelli.

„Við stóðum okkur mjög vel í leiknum og þvílík synd að þetta skildi fara svona. Allt liðið varðist vel og menn lögðu sig alla fram í verkefnið.“

Aktobe fékk dæmda vítaspyrnu á lokamínútu leiksins þegar Þórður Steinar var dæmdur brotlegur.

„Leikmaðurinn veiddi þetta víti vel. Hann flækist í raun í Þórði og sótti þetta víti vel. Þetta leit kannski ekki svona vel út fyrir dómarann en í raun aldrei vítaspyrna. Mér fannst þessi dómari reyndar dæma þennan leik virkilega vel, fyrir utan vítaspyrnudóminn.“

„Núna tekur við ferðalag heim og síðan fer liðið að undirbúa sig fyrir bikarleik gegn Fram á Sunnudaginn. Menn mega ekki hugsa lengra en það. Ég tel samt sem áður að við eigum fína möguleika gegn Aktobe heima. Síðast þegar ég vissi þá fer sá leikur fram á Laugardalsvelli og vonandi fáum við góðan stuðning.“

Gunnleifur var magnaður í leiknum og varði hvað eftir annað meistaralega. Hann mun nýtast vel í síðari leiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×