Fótbolti

Leik lokið: Magnaður sigur Blika í Austurríki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Blikar höfðu ærna ástæðu til að fagna í Graz í dag.
Blikar höfðu ærna ástæðu til að fagna í Graz í dag. Mynd/Arnþór

Breiðablik tryggði sér sæti í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar í knattspyrnu með 1-0 sigri á Sturm Graz í síðari leik liðanna í Austurríki í dag. Blikar mæta Aktobe frá Kasakstan í næstu umferð.

Eftir markalaus jafntefli í fyrri leiknum í Kópavogi áttu Blikar svo sannarlega möguleika gegn Austurríkismönnunum þótt verkefnið væri erfitt. Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik þar sem heimamenn sóttu meira náði Blikar góðri sókn. Daninn Nichlas Rohde átti frábæran sprett upp vinstri kantinn, sendi fyrir markið á Ellert Hreinsson sem skoraði af stuttu færi. Blikar fögnuðu en stuðningsmenn heimamanna, sem áttu vafalítið von á þægilegum sigri, blístruðu á sína menn.

Blikar spiluðu afar agaðan varnarleik í síðari hálfleik. Þeir leyfðu heimamönnum að halda boltanum, lágu til baka og sóttu hratt þegar færi gafst. Gunnleifur Gunnleifsson varði þau fáu skot sem á marki hans höfnuðu en annars áttu heimamenn fá svör við Blikum.

Elfar Árni Aðalsteinsson fékk sitt annað gula spjald á 80. mínútu og léku Blikar því manni færri síðustu mínúturnar. Það kom ekki að sök því Kópavogsbúar héldu haus og gott betur. 1-0 útisigur var í höfn og Blikar í komnir í 3. umferð.

Andstæðingur Blika verður lið Aktobe frá Kasaksan. Aktobe sló út 2. deildarlið Hödd frá Noregi í tveimur leikjum samanlagt 2-1. Aktobe mætti FH í forkeppni Meistaradeildar Evrópu árið 2009 og vann 4-0 sigur í Hafnarfirði og 2-0 sigur ytra. Miðað við úrslitin gegn norska liðinu er lið Aktobe ekki jafnsterkt í dag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.