Viðskipti innlent

Stærsti geimbardagi sögunnar í Eve-Online

Kristján Hjálmarsson skrifar
Hver punktur á myndinni táknar eitt geimskip sem er stjórnað af einum spilara. Eins og sjá má tóku þúsundur spilara þátt í bardaganum. Rauðir og appelsínugulu punktarnir eru óvinir þess sem tók skjámyndina. Hinir eru vinveittir.
Hver punktur á myndinni táknar eitt geimskip sem er stjórnað af einum spilara. Eins og sjá má tóku þúsundur spilara þátt í bardaganum. Rauðir og appelsínugulu punktarnir eru óvinir þess sem tók skjámyndina. Hinir eru vinveittir.
Hátt í þrjú þúsund geimskip skemmdust eða var eytt í stærsta geimbardaga sögunnar sem fram fór í Eve-Online tölvuleiknum í nótt. Þúsundir spilara börðust á um fjögur þúsund geimskipum með afdrifaríkum afleiðingum.

Bardaginn hófst þegar í brýnu sló á milli tveggja stórra bandalaga, CFC og TEST Alliance Please Ignore, en bæði vildu slá eign sinni á svæðið sem kallað er Fountain. Hönnuðir Eve-online höfðu nýlega komið fyrir verðmætum tunglum sem bæði bandalög vildu ná á sitt vald.

Bardaginn vekur mikla athygli

"Þó ég sé ekki búinn að kanna allar forsendur held ég að það sé alveg rétt að kalla þetta einn stærsta bardaga í tölvuleikjasögunni," segir Eldar Ástþórsson, starfsmaður hjá CCP. "Þarna voru þúsundir leikmanna að berjast á nákvæmlega sama tíma. Það er mjög athyglisvert að sjá hvað þessi bardagi vekur mikla athygli. Bandaríkin eru nú að vakna til lífsins eftir bardagann sem fór fram í gærkvöldi og við sjáum mikinn áhuga þaðan, bæði frá fjölmiðlum og á netinu. Svo voru þúsundir manna sem fylgdust með bardaganum í beinni útsendingu."

Meðal þeirra sem fjallað hafa um málið er Huffington Post.

Þúsundir spilara komu saman í Eve-Online leiknum í nótt.
Efnahagslegar og pólitískar afleiðingar

Eldar segir álagið á netþjóna CCP vissulega vera mikið þegar svona stór bardagi fer fram. "En það er ein af sérstöðu Eve-Online, það er hvað margir geta spilað á sama tíma. Þetta er eitt af því sem við stærum okkur af - að vera með leik sem atburðir sem þessir eru mögulegir. Þegar þúsundir manna safnast saman á sama tíma í leiknum þurfa öll tæknileg atriði að vera í lagi," segir Eldar.

"Það er gaman að sjá hvað atburðir sem þessir hafa gríðarlegar afleiðingar, bæði efnahagslegar og pólitískar. Þetta er vissulega gervibardagi en er raunverulegur að ansi mörgu leyti og hefur ýmsar afdrifaríkar afleiðingar í för með sér."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×