Viðskipti innlent

Ákærðu enn við störf hjá Íslandsbanka

Valur Grettisson skrifar
Birkir Kristinsson  starfar enn hjá Íslandsbanka.
Birkir Kristinsson starfar enn hjá Íslandsbanka.
Þeir Birkir Kristinsson og Elmar Svavarsson, starfa báðir enn hjá Íslandsbanka, þrátt fyrir að þeir hafi verið ákærðir ásamt tveimur öðrum mönnum, fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og brot á lögum um ársreikninga í tengslum við 3,8 milljarða króna lánveitingu Glitnis til félags í eigu Birkis í nóvember árið 2007.

Báðir störfuðu þeir einnig hjá Glitni þegar brotin áttu að hafa átt sér stað.

Það var Fréttablaðið sem greindi fyrst frá málinu í morgun, en þar kom fram að auk Birkis og Elmars eru þeir Jóhannes Baldursson og Magnús Arnar Arngrímsson ákærðir í málinu.

Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu um málefni starfsmannanna, segir að bankinn geti ekki tjáð sig opinberlega um málefni einstakra starfsmanna. Samkvæmt reglum bankans eiga þó menn sem eru ákærðir í svona málum að fara í leyfi á meðan staða þeirra er metin og mál þeirra skýrast.

Orðrétt segir svo í svari bankans: „Rétt er að benda á að gert er ráð fyrir því að bankinn geti á einhverjum tímapunkti endurskoðað afstöðu sína varðandi stöðu starfsmanna.“


Tengdar fréttir

Fjórir ákærðir fyrir lán til Birkis Kristinssonar

Sérstakur saksóknari hefur ákært Birki Kristinsson og þrjá aðra fyrrverandi starfsmenn Glitnis fyrir umboðssvik, markaðsmisnotkun og fleira. Ástæðan er 3,8 milljarða lán til félags í eigu Birkis til kaupa á bréfum í bankanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×