Innlent

Skoða líkamsleifar í dag

Hrund Þórsdóttir skrifar
Mynd/Loftmyndir

Fólk sem var á ferðalagi í Kaldbaksvík á Ströndum á föstudagskvöldið tilkynnti lögreglunni á Vestfjörðum um sjórekið lík í fjörunni. Lögregla fór þegar á vettvang og gerði kennslanefnd viðvart, en hlutverk hennar er að bera kennsl á óþekkta látna einstaklinga og líkamsleifar.

Nefndin, sem starfar undir embætti ríkislögreglustjóra, kemur saman í dag vegna málsins. Hana skipta tveir rannsóknarlögreglumenn, réttarmeinafræðingur og tannlæknir.

Bjarni Bogason, formaður kennslanefndarinnar, segir að nú fari frumrannsókn í gang og að engar hugmyndir séu uppi um hver sá látni gæti verið. Ekki er vitað hvenær viðkomandi lést eða hvors kyns hann er. Þá er óvitað hve lengi líkið hefur legið í fjörunni en ekki er búið í Kaldbaksvík árið um kring.

Bjarni segir að um beinagrind sé að ræða og verður notast við greiningar á beinum og tönnum til að reyna að bera kennsl á viðkomandi. Hann vill engu spá fyrir um hvenær niðurstöður muni liggja fyrir, það fari eftir hversu vel vinna nefndarinnar muni ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×