Fótbolti

Klinsmann vill fá Aron í landsliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images

Jürgen Klinsmann, þjálfari bandaríska landsliðsins, hefur lýst því yfir að hann vilji fá Aron Jóhannsson í lið sitt sem allra fyrst.

„Við höfum verið að fylgjast mjög náið með Aroni Jóhannssyni,“ sagði Klinsmann í samtali við bandaríska fjölmiðla.

„Hann spilar í dag með Jozy Altidore hjá AZ Alkmaar og er að koma til baka eftir meiðsli. Hann er með tvöfaldan ríkisborgararétt og við viljum fá hann í náinni framtíð.“

Klinsmann hefur ekki tjáð sig opinberlega um Aron áður og því er þetta mjög sterk vísbending um að hann muni velja hann í lið sitt fyrir Gold Cup-keppnina síðar í sumar.

Bandaríkin leikur einnig vináttulandsleik gegn Belgíu þann 29. maí næstkomandi og gæti verið að Klinsmann velji Aron í liðið fyrir þann leik.

Lars Lagerbäck, þjálfari Íslands, hefur áður valið Aron í lið sitt en kappinn þurfti þá að draga sig úr hópnum vegna meiðsla. Ísland leikur næst gegn Slóveníu þann 7. júní næstkomandi í undankeppni HM 2014.

Aron er fæddur í Alabama í Bandaríkjunum, þar sem foreldrar hans voru í námi. Hann fluttist aftur til Íslands þriggja ára gamall.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×