Innlent

Óvissustig vegna hugsanlegs goss í Heklu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hekla gaus síðast árið 2000.
Hekla gaus síðast árið 2000.

Búið er að lýsa yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðhræringa í Heklu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ríkislögreglustjóra og lögreglustjóra á Hvolsvelli.

Í tilkynningunni segir að Veðurstofa Íslands hafi upplýst almannavarnadeild ríkislögreglustjóra um óvenjulegar jarðhræringar í Heklu. Jafnframt hafi Veðurstofan hækkað eftirlitsstig Heklu í gult vegna flugumferða, sem þýði að eldfjallið sýni óvenjulega virkni.

Óvissustig almannavarna þýðir að aukið eftirlit er haft með atburðarrás sem á síðari stigum gæti leitt til þess að heilsu og öryggi fólks, umhverfis eða byggðar verði ógnað. Að lýsa yfir óvissustigi er hluti af verkferlum í skipulagi almannavarna til að tryggja formleg samskipti og upplýsingagjöf. Óvissustigi er lýst yfir til þess að upplýsa viðeigandi viðbragðsaðila og er ákveðið ferli í skipulagi almannavarna og það lægsta af þrem.

Ríkislögreglustjórinn og lögreglustjórinn á Hvolsvelli vara við ferðum fólks á Heklu á meðan óvissustig er í gildi.

Hægt er að sjá beina útsendingu frá Heklu úr vefmyndavél Mílu á livefromiceland.is.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira