Innlent

"Allt annað eru svívirðileg og grófustu svik í sögu Alþingis frá öndverðu"

Formaður lýðræðisvaktarinnar segir stöðu stjórnarskrármálsins á Alþingi makalausa og ekki eiga sér neitt fordæmi. Hann segir mikilvægt að vilji meirihluta Alþingis og þjóðarvilji nái fram að ganga fyrir kosningar, allt annað séu svívirðileg svik og þau grófustu í sögu Alþingis frá öndverðu.

Fram hefur komið að Alþingi nær líklegast ekki að ljúka stjórnarskrármálinu fyrir komandi þingkosningar. Þetta hefur vakið hörð viðbrögð og verður efnt til útifundar á Ingólfstorgi í dag til að mótmæla þessari niðurstöðu. Þorvaldur Gylfason formaður Lýðræðisvaktarinnar og stjórnlagaráðsfulltrúi segir stöðu stjórnarskrármálsins ótrúlega.

„Staða stjórnarskrármálsins á Alþingi er makalaus og á sér eiginlega ekkert fordæmi. Það liggur fyrir að 32 þingmenn af 63 hafa lýst því yfir opinberlega að þeir styðji stjórnarskrárfrumvarpið og vilji að það verði afgreitt á Alþingi fyrir þinglok. En samt virðist stefna í það að þinghaldi verði lokið áður en vilji þingmeirihlutans nær fram að ganga. Það er eins og forseti Alþingis ætli sér að slíta þinghaldinu og ganga þannig gegn þjóðarviljanum sem birtist svo skýrt í þjóðaratkvæðagreiðslu 20 október."

Þorvaldur segir þessa stöðu minna helst á þjóðfundinn 1851. Þegar Trampe sleit fundinum með ofbeldi til að koma í veg fyrir að vilji þjóðfundarfulltrúa næði fram að ganga. Tímaskortur og aðrar afsakanir séu fyrirsláttur.

„Þegar þingkosningar fóru fram 2009 þá hélt þingið áfram fram í miðjan apríl. Þannig að það er engin ástæða til að slíta þinginu um miðjan mars. Það eru fjórar til fimm vikur til stefnu."

Frumvarpið liggi fyrir, búið sé að taka tillit til athugasemda frá Feneyjarnefndinni og því sé alþingi ekkert að vanbúnaði. Þorvaldur segir mikilvægt að vilji meirihluta Alþingis , sem liggi fyrir og þjóðarviljinn í stjórnarskrármálinu nái fram að ganga.

„Allt annað eru svívirðileg og grófustu svik í sögu Alþingis frá öndverðu. "Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.