Innlent

Mikill meirihluti þjóðarinnar vill leyfa olíuvinnslu á Drekasvæðinu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Áttatíu prósent landsmanna eru fylgjandi því að stjórnvöld leyfi olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Ný skoðanakönnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins sýnir einnig að á meðal kjósenda VG er stuðningurinn rúm sextíu prósent.

Í könnun Stöðvar 2 og Fréttablaðsins sem gerð var sextánda og sautjánda þessa mánaðar var fólk meðal annars spurt út í álit sitt á mögulegri olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Spurt var: Hversu fylgjandi eða andvígur ertu því að íslensk stjórnvöld leyfi olíuvinnslu á Drekasvæðinu?

Rúmur helmingur, eða fimmtíu og tvö prósent aðspurðra segjast vera mjög fylgjandi olíuvinnslu á svæðinu. Tuttugu og átta prósent segjast síðan frekar fylgjandi hugmyndinni. Ellefu prósent eru hvorki fylgjandi né andvíg hugmyndinni og fimm prósent eru frekar andvíg. Fjögur prósent eru leggjast síðan alfarið gegn því að olíuvinnsla verði leyfð á Drekanum.

Ef litið er til þess um hvort kynið er að ræða sést að áttatíu prósent karla eru fylgjandi hugmyndinni og en sjötíu og þrjú prósent kvenna.

Búseta virðist fremur lítil áhrif hafa á skoðanir fólks til olíuvinnslunnar. Sjötíu og átta prósent höfuðborgarbúa eru fylgjandi vinnslu á svæðinu en áttatíu og fjögur prósent landsbyggðarfólks. Tíu prósent borgarbúa segjast síðan andvíg vinnslunni og níu prósent landsbyggðarfólks.

Ef litið er til þess hvaða flokka fólk segist styðja kemur í ljós að stuðningurinn er mestu á meðal sjálfstæðis- og framsóknarmanna en áttatíu og sjö prósent hinna fyrrnefndu eru fylgjandi og áttatíu og fimm prósent þeirra síðarnefndu.

Samfylkingarfólk er líka jákvætt í garð olíuvinnslunnar en sjötíu og fimm prósent þeirra segjast fylgjandi hugmyndinni á meðan sautján prósent eru andvíg.

Sjötíu og sjö prósent kjósenda Bjartrar framtíðar eru fylgjandi hugmyndinni og ellefu prósent eru á móti.

Það sem sumum gæti komið á óvart er að kjósendur Vinstri grænna skera sig ekki mjög mikið úr þrátt fyrir mikla áherslu flokksins á náttúruvernd og umhverfismál. Sextíu og eitt prósent kjósenda þeirra eru fylgjandi því að leyfi verði veitt fyrir olíuvinnslu á Drekasvæðinu og þrjátíu prósent kjósenda þeirra eru því andvígir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×