Innlent

Vilborg svöng á pólnum - 220 kílómetrar til stefnu

220 kílómetrar til stefnu!
220 kílómetrar til stefnu!
Íslenski Suðurpólsfarinn Vilborg Arna Gissurardóttir leggur nú til atlögu við síðustu kílómetrana að lokatakmarki sínu. Hún er nú komin yfir á 88.breiddargráðu og á eftir að ganga um 220 km til að ná á pólinn.

Og enn er á brattann að sækja því hækkunin sem eftir er nemur um 250 metrum. Nú eru 47 göngudagar að baki og miðað við yfirferð Vilborgar síðustu daga má ætla að hún komist á pólinn eftir rétta viku.

Aðstæður til pólgöngu hafa verið slæmar síðustu daga, mikill kuldi og hvassviðri sem myndað hefur það háa rifskafla að vanir pólfara segjast vart þekkja annað eins.

Vilborg, sem þarf að hylja allt andlit sitt með grímu, segir þessar aðstæður vera mikla áskorun fyrir sig og þrátt fyrir að hún sé lítillega kalin á lærum hefur henni aukist þróttur eftir því sem lokatakmarkið nálgast. Hún segist þó vera sísvöng enda er maturinn sem hún hefur haft meðferðis á þrotum. Líkur eru á að hún þurfi að láta senda sér meiri vistir þar sem göngudagarnir verða væntanlega fleiri en hún gerði ráð fyrir.

Á meðan á göngunni stendur safnar Vilborg Arna áheitum til styrktar Líf styrktarfélags Kvennadeildar Landspítalans - og geta menn sett sig í spor Vilborgar með því að heita á hana í síma 908 1515 (1500 kr) eða með frjálsum framlögum á vefsíðunni www.lifsspor.is, en þar heldur hún einnig úti dagbók um ferð sína á pólinn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×