Innlent

Segist vanur flugeldum frá Jóni

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, styður tillögu fulltrúa Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks í utanríkismálanefnd um að gera hlé á viðræðum við Evrópusambandið. Það yrði síðan sett í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort halda ætti viðræðunum áfram.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segist taka þessum tíðindum rólega og munu skoða málið. „Ég er ekkert óvanur flugeldum af þessu tagi frá Jóni Bjarnasyni, en ég er aldrei hræddur við niðurstöðu mála á þinginu."

Ragnheiður Elín Árnadóttir, einn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, vonast til að tillagan verði samþykkt á þingi. „Það er svo margt búið að gerast og margt hefur verið sagt. Ráðherrar og þingmenn Vinstri grænna hafa tjáð sig með þeim hætti að mér finnst ekki ólíklegt að menn hugsi sig vel um málið."

Össur á hins vegar ekki von á samþykkt tillögunnar. „Ég held að þetta séu ákveðin fjörbrot þeirra sem skynja að þetta mál er á skriði og það verður ekki hægt að koma í veg fyrir að íslenska þjóðin fái að segja álit sitt á endanlegum samningi."

Flutningsmenn hafa óskað eftir að tillagan verði rædd á fundi utanríkismálanefndar á morgun. Árni Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar, segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort við því verði orðið.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×