Innlent

Bandaríkin kröfðust hertra varna gegn laumufarþegum

Bandarísk yfirvöld telja öryggi á hafnarsvæðum hérlendis ábótavant og hafa krafist þess að úr því verði bætt. Þau telja óviðunandi að sami, smái hópur komist ítrekað upp með að reyna að lauma sér um borð í skip hér.

Í samskiptum fulltrúa bandaríska heimavarnarráðuneytisins við íslensk yfirvöld hefur komið fram að annars kunni íslensk skip að verða færð niður um öryggisflokk, sem mundi til dæmis kalla á mun ítarlegri skoðun við komuna til Bandaríkjanna en áður.

„Menn vilja hafa það alveg geirneglt að laumufarþegar komist ekki um borð í skip og flugför sem fara hér um," segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, sem tók fyrir nokkrum vikum á móti sendinefnd frá heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna sem hingað kom til að kynna sér aðstæður.

Samkvæmt heimildum blaðsins fundaði hópurinn jafnframt með fulltrúum Siglingastofnunar og hérlendra skipafélaga. Hjá Siglingastofnun var vísað á ráðuneytið vegna málsins og Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskips, vildi heldur ekkert segja.

Fyrir nokkrum dögum barst Siglingastofnun svo bréf frá Bandaríkjamönnunum í kjölfar heimsóknarinnar. Afrit af því var sent til ráðuneytisins. Heimildir Fréttablaðsins herma að í bréfinu sé látin í ljós talsverð óánægja með viðbrögð íslenskra stjórnvalda í heimsókninni fyrir nokkrum vikum.

Fréttablaðið óskaði eftir því við ráðuneytið að fá bréfið afhent en þeirri beiðni var synjað með vísan til þess að það innihéldi viðkvæmar upplýsingar um siglingaöryggi.

„Satt að segja hef ég sannfærst um það fyrir mitt leyti að það er afar vel staðið að þessum málum hér á landi. Í samræmi við það hef ég átt svolítið erfitt með að skilja strangar aðfinnslur Bandaríkjamanna," segir Ögmundur.

Hann kveðst ekki hafa skoðað bréfið en telji málið þó í góðum farvegi. Það sé mikið hagsmunamál að siglingar um Ísland gangi snurðulaust fyrir sig.

„Ég held að sameiginleg skoðun á málinu muni annars vegar leiða í ljós að þessi mál eru í betra horfi en einhverjir kynnu að hafa haldið og hins vegar að ef eitthvað þurfi að laga þá sé vilji til þess. Að sjálfsögðu yrði það hins vegar gert á okkar forsendum," segir hann. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×