Innlent

Í eina sæng eftir næstu áramót

Talsvert minna fylgi var meðal Garðbæinga en Álftnesinga. Bæjarstjóri Garðabæjar segir það skiljanlegt, en nú sé mál að taka höndum saman.
Talsvert minna fylgi var meðal Garðbæinga en Álftnesinga. Bæjarstjóri Garðabæjar segir það skiljanlegt, en nú sé mál að taka höndum saman.
Sveitarfélögin Álftanes og Garðabær munu sameinast, undir merkjum hins síðarnefnda, í upphafi næsta árs. Sameining var samþykkt í báðum sveitarfélögum um helgina.

Alls voru 87,7 prósent kjósenda á Álftanesi fylgjandi sameiningu en 11,5 prósent á móti. Í Garðabæ var hins vegar mjórra á munum þar sem rúm 53 prósent greiddu atkvæði með sameiningu en tæp 47 prósent á móti.

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, segir í samtali við Fréttablaðið að gott sé að fá niðurstöðu í málið. Ekki hafi komið á óvart að lítill munur hafi verið meðal Garðbæinga. "Við vissum að þetta yrði þyngra hér í Garðabæ en úti á Álftanesi og afstaða þeirra sem að sögðu nei er skiljanleg. Fólk veit hvað það hefur og er ánægt með Garðabæ eins og er. En nú er bara komið að því að snúa bökum saman og búa til enn betra og sterkara sveitarfélag."

Gunnar segir bæjastjórn Garðabæjar munu fara með stjórn hins nýja sveitarfélags og bæjarstjórn Álftaness verði nokkurs konar ráðgefandi hverfastjórn. Nýja sveitarfélagið mun halda Garðabæjarnafninu, enda segir Gunnar að um það hafi verið samið í upphafi viðræðna.

"Garðabær hefur sterka ímynd og auk þess hefur orðið garðar sterka sögulega skírskotun út á Álftanes. Þannig að það var enginn ágreiningur um það."

Íbúar sameinaðs sveitarfélags verða um 14.000 talsins miðað við tölur Hagstofu frá 1. janúar.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×