Erlent

Lýðræðinu ógnað á margan hátt

Michael T. Corgan
Michael T. Corgan
Þó enn sé óvíst hvort frammistaða Baracks Obama og Mitts Romney í kappræðunum í vikunni komi til með að skipta sköpum þegar upp er staðið markaði rimman upphafið að endasprettinum í kosningaferli sem markar tímamót að mörgu leyti.

Romney var sannarlega keikur eftir kappræðurnar enda var það mál manna að hann hefði haft forsetann undir og jafnvel náð að höfða til óákveðinna kjósenda á miðju stjórnmálanna. Obama náði sér ekki á strik, var langorður og hikandi og nýtti sér ekki færi til að hanka Romney á nokkrum lykilatriðum.

Í framhaldinu sakaði Obama andstæðing sinn um að hafa hallað réttu máli í viðræðunum auk þess sem ríkisstjórinn fyrrverandi hefði enn skotið sér undan því að skýra fyrirhugaða skattastefnu sína. Romney hefur sagst ætla að skera niður skattheimtu um fimm þúsund milljarða dala næsta áratuginn en þó án þess að auka á skuldir ríkissjóðs. Aðgerð sem hagfræðingar telja að geti trauðla gengið upp.

Baráttan er því að komast í fimmta gír og verður eflaust óvægnari fram að kjördegi 6. nóvember næstkomandi.

Lýðræði í reynd?Bandaríkjamenn leggja jafnan ofuráherslu á lýðræðishugsjónina, en hversu virkt er lýðræðið í forsetakosningunum?

Michael T. Corgan, dósent í alþjóðasamskiptum við Boston College, hélt framsögu á vegum Alþjóðastofnunar Háskóla Íslands í gær þar sem hann fjallaði einmitt um lýðræðið og framtíð þess í tengslum við kosningarnar.

Að hans mati er ýmislegt sem skekkir myndina varðandi jöfn tækifæri þegna landsins til að hafa áhrif á stjórn landsins. Á meðal þess sem hann tiltók var hlutverk hvers ríkis í vali forsetans, hertar reglur um að sýna skilríki á kjörstað og hinn taumlausi fjáraustur í kosningabaráttuna sem setur ný viðmið í þessum efnum.

Ohio velur forsetannÞað er kunn staðreynd að vegna kjörmannakerfisins eru það íbúar fárra ríkja sem ráða úrslitum kosninganna hverju sinni. Hvert ríki hefur ákveðinn fjölda kjörmanna, eftir íbúafjölda, sem velja svo forseta. Sigurvegari í hverju ríki (utan Nebraska og Maine) fær alla kjörmenn þess og er því til mikils að vinna.

Lykilríkin eru þau þar sem mjótt er á munum milli frambjóðenda. Þau eru mismörg hverju sinni, jafnan á bilinu tíu til fimmtán, og njóta þau bættrar stöðu gagnvart öðrum í aukinni athygli frambjóðenda og loforða sem þeir gefa í baráttunni, í von um að snúa kjósendum í ríkinu til fylgis við sig.

Á meðan eru þau ríki sem ekki tjáir að berjast um afskipt og hafa síður áhrif á stefnu frambjóðenda.

Erkidæmið um lykilríki er Ohio sem hefur oftar en ekki riðið baggamuninn í kosningum. Ekki er því að undra að Corgan hafi sagt í fyrirlestrinum, í hæðnistón, að í raun sé verið að velja forseta Ohio!

Staða Obama í lykilríkjunum er sem stendur mun sterkari en Romney hefur saxað á forskotið í kjölfar kappræðnanna.

Kerfið gegn fátækumKosningafyrirkomulagið í Bandaríkjunum hefur um árabil verið þannig úr garði gert að lágtekjufólk á erfiðara með að taka þátt í kosningum. Það mál sem er nú í forgrunni, og Corgan minntist á, er viðleitni til að herða reglur um skilríki á kjörstað, undir því meinta yfirskyni að verið sé að koma í veg fyrir kosningasvindl sem hefur hreint ekki verið vandamál hingað til.

Corgan sagði að skilríki með mynd væru hreint ekki svo algeng, og þá síst meðal þeirra tekjulægri, og gengju nýjar reglur þá beint gegn möguleikum þess hóps til að geta nýtt kosningarétt sinn.

Fordæmalaus fjárausturÞrátt fyrir að ekkert launungarmál hafi verið að fjármagn geti og hafi skipt sköpum í forsetakosningabaráttu um árabil marka þessar kosningar tímamót.

Áður hafði kosningalöggjöf sett hömlur á framlög en eins og Corgan benti á breytti nýlegur úrskurður hæstaréttar öllu fjármögnunarumhverfi framboða.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ekkert gæti bannað fyrirtækjum að ?tjá skoðanir sínar?, það er að styrkja málstað eins frambjóðanda umfram annan.

Það hefur orðið til þess að peningum hefur rignt inn í svokallaða Super PAC-sjóði, sem eru aðeins bundnir af því að vera ekki beintengdir frambjóðendunum og að í útgefnu efni þeirra sé ekki hvatt til þess að kjósa annan frambjóðandann fram yfir hinn. Áherslan hefur því frekar verið á að tíunda ókosti andstæðingsins og velta upp þeirri spurningu hvort kjósendur vilji að hann nái kjöri.

Um síðustu mánaðamót hafði Romney safnað tæpum 800 milljónum dala og Obama litlu minna, en allt stefnir í að þeir muni samtals eyða rúmum tveimur milljörðum dala í kosningabaráttuna, sem er meira en nokkru sinni áður.

Ef fram fer sem horfir munu Bandaríkjamenn væntanlega sjá enn meiri áherslu á helstu lykilríkin þar sem frambjóðendur munu ríða um héruð með fulla vasa fjár.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×