Innlent

Segja bilun skýra mengunina

Flúor er einn helsti mengunarvaldur frá álverum.
fréttablaðið/valli
Flúor er einn helsti mengunarvaldur frá álverum. fréttablaðið/valli fréttablaðið/valli
Umhverfisvöktun vegna álvers Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði í sumar leiddi í ljós hækkaðan styrk á flúor í grasi í firðinum. Í tilkynningu Umhverfisstofnunar í gær kom fram að mengunin væri umfram viðmið fyrir grasbíta en ekki væri um að ræða hættu fyrir fólk. Skýringar á menguninni komu frá Fjarðaáli síðdegis en Umhverfisstofnun kallaði eftir nánari úttekt á orsökum og afleiðingum mengunarinnar frá fyrirtækinu.

Umhverfisstofnun telur fulla ástæðu til að bregðast við; kanna hvort áhrifa gæti í búfé í firðinum og hver styrkur flúors sé í heyi áður en teknar verði ákvarðanir um frekari aðgerðir. Óskað var eftir tillögum að frekari rannsóknum hjá Náttúrustofu Austurlands og greindi stofnunin sveitarstjórn, heilbrigðiseftirliti og Matvælastofnun frá málinu.

Í tilkynningu frá Alcoa Fjarðaáli segir að nokkrir samverkandi þættir skýri mengunina, meðal annars bilun í tæknibúnaði sem búið er að gera við. Nýjar mælingar staðfesta að meðaltalsgildi flúors frá álverinu er nú komið í eðlilegt horf, segir þar.

Í samræmi við starfsleyfi Fjarðaáls verða áhrif flúoraukningarinnar rannsökuð sérstaklega. Fjarðaál mun halda áfram að vinna að úrlausn málsins í samvinnu við Umhverfisstofnun og hagsmunaaðila í Fjarðabyggð, segir í tilkynningu fyrirtækisins.

- shá



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×