Innlent

Bændur enda flestir á skrá lögreglunnar

Liðin er sú tíð að áburður fáist í 50 kílóa pokum. Núna fer öll afhending fram í stórsekkjum sem taka fimm til sex hundruð kíló. Sekkirnir hér að ofan fundust heima hjá Anders Behring Breivik í Noregi.Nordicphotos/AFP
Liðin er sú tíð að áburður fáist í 50 kílóa pokum. Núna fer öll afhending fram í stórsekkjum sem taka fimm til sex hundruð kíló. Sekkirnir hér að ofan fundust heima hjá Anders Behring Breivik í Noregi.Nordicphotos/AFP
Líkur eru á að lögreglu berist í hrönnum tilkynningar um áburðarkaup bænda verði nýtt frumvarp til vopnalaga að veruleika. Til stendur að leggja frumvarpið fram á þingi eftir helgina. Í því er miðað við að tilkynna þurfi um sölu á áburði sem nota megi til að búa til sprengiefni fari magnið yfir 500 kíló á sex mánaða tímabili.

„Þetta gengur ekki upp,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. „Meðalbú kaupir aldrei undir 20 tonnum.“ Haraldur segir umræðuna um aukið eftirlit með áburðarkaupum þekkta erlendis frá og hafi til að mynda komið upp í Noregi eftir ódæði Breiviks þar í landi. Hann varar hins vegar við því þjóðir láti hrekja sig út í „eftirlits- og leyfafargan“, bændur verði illa settir undir vopnalög. „500 kíló samsvara einum sekk af áburði og það kaupir enginn minna en það.“

Haraldur hefur ekki séð frumvarpið, en gerir ráð fyrir að Bændasamtökin veiti Alþingi umsögn sína vegna þess. Hann segir samtökin þó geta sætt sig við beitingu vægustu úrræða, líkt og lagt er til í frumvarpinu sem gerir ráð fyrir að áburðarsalar afhendi lögreglu lista yfir þá sem hafi undir höndum tiltekið magn af áburði. Eftir nokkra umræðu í Noregi hafi einmitt verið raunin að fara þá leið, fremur en að leggja á bændur íþyngjandi reglur um meðferð áburðar. „Og við getum kannski ekki sagt neitt við því.“

Hertar reglur um vopnaeign og meðferð skotvopna eru hins vegar fagnaðarefni, að mati Ívars Erlendssonar, félaga í Skotveiðifélagi Íslands (Skotvís) en hann sat í nefnd um endurskoðun vopnalaga. „Mér líst vel á þetta, að megninu til er þetta það sem við lögðum til á sínum tíma,“ segir hann og kveður félagsmenn vona að frumvarpið fari að mestu óbreytt í gegnum þingið.

Þó segir Ívar að í heildarendurskoðun á vopnalögunum hefðu félagsmenn viljað sjá meiri tilslakanir í sambandi við vopnaeign. Hafi einhverjum verið treyst til þess að fara með skotvopn, ætti ekki að skipta máli hvers lags vopn er um að ræða, svo fremi sem í lagi sé með meðferðina á þeim og geymsluaðferðir. „Þannig ætti ekki að skipta máli hvort viðkomandi er með skammbyssu, riffil eða haglabyssu.“

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra segir að með frumvarpinu sé reynt að þræða gullinn meðalveg þannig að auknar skorður í vopnaeign þrengi ekki að skotveiðimönnum eða íþróttamönnum á sviði skotfimi.

olikr@frettabladid.is

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×