Innlent

Ekki hægt að lækka gjöld fyrir Hörpu

Styr hefur staðið um rekstur Hörpu, en árleg fasteignagjöld eru rúmlega tvöfalt hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Styr hefur staðið um rekstur Hörpu, en árleg fasteignagjöld eru rúmlega tvöfalt hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Fréttablaðið/GVA

Reykjavíkurborg getur ekki gefið Hörpu afslátt af fasteignagjöldum eins og Pétur J. Eiríksson, stjórnarformaður Portusar, eignarhaldsfélags Hörpu, kallaði eftir í Fréttablaðinu fyrr í vikunni. Þetta segir aðstoðarmaður borgarstjóra.

Árleg fasteignagjöld Hörpu eru 380 milljónir, en áætlanir rekstrarfélagsins gerðu ráð fyrir að greiða um 180 milljónir árlega.

„Álagning fasteignagjalda er ekki geðþóttaákvörðun,“ segir S. Björn Blöndal, aðstoðarmaður borgarstjóra, í samtali við Fréttablaðið. „Þar gengur eitt yfir alla. Harpa er mjög stórt hús sem borgar fasteignagjöld í samræmi við það.“

Mismunurinn milli áætlana og þess sem svo varð, skýrist af því að miðað var við svokallað rekstrarvirði og vísað í fordæmi Smáralindarinnar.

Björn segir að það vinnulag hafi verið borið undir yfirfasteignamatsnefnd sem skar úr um að slíkt væri ekki heimilt. „Þess vegna er álagningin með þessum hætti. Það má líka taka fram að á öllum stigum málsins bentu fulltrúar borgarinnar á að afar ólíklegt væri að þetta stæðist.“

Pétur sagði í vikunni að ef ekki næðust samningar um að létta fasteignagjöldum af Hörpu gætu eigendur hússins, ríki og borg, þurft að taka yfir reksturinn.

Björn sagði engar slíkar viðræður hafa átt sér stað.

„Ég sé ekki að það bæti neitt að ríki og borg taki þetta yfir. Verkefnið er nú að sjá hvort hægt sé að gera breytingar á rekstrinum til að loka þessu gati sem er. Við þurfum að vinna í því núna.“
- þj
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.