Skoðun

Ferðaþjónustan og tíminn

Pétur Óskarsson skrifar
Hugmynd sett fram af fjármálaráðherra um hækkun á virðisaukaskatti á gistingu frá 1. júní 2013 er nú þegar farin að hafa neikvæð áhrif á sölu Íslandsferða fyrir næsta ár. Óvissan er algjör, málið virðist vera órætt meðal stjórnarliða og enginn veit hvert þessi vonda hugmynd er að fara.

Það er óþolandi fyrir okkur sem störfum í greininni að svona sé sett fram með svo stuttum fyrirvara með þeim skilaboðum að ákvörðunin verði ekki tekin fyrr en í lok þessa árs. Salan á Íslandsferðum árið 2013 er í gangi núna, ekki seinna. Margir ferðaheildsalar eru búnir að ganga frá öllum sínum samningum fyrir sumarið 2013 og tilboðagerð og sala hjá öðrum er nú í fullum gangi.

Það er ljóst að ekki verður hægt að setja skattahækkun innanlands út í verðið á samningum sem búið er að gera. Fjármálaráðherra þarf að svara því strax, hvað við sem erum að selja Íslandsferðir eigum að gera núna.

Eigum við að hækka verðið strax á ferðum til Íslands frá og með 1. júní 2013 í þeim samningum sem við eigum eftir að gera fyrir næsta sumar? Enginn erlendur dreifiaðili mun setja slíka vöru í hilluna við hliðina á vörum frá þeim sem sömdu áður en ráðherra kastaði sprengjunni.

Eða eigum við að láta sem ekkert sé og taka áhættuna á því að allar tekjur okkar sem ferðaheildsala sem eru í meðalári u.þ.b. 10% af veltu verði þurrkaðar upp með ákvörðun í desember þegar fjárlagafrumvarpið verður afgreitt af Alþingi?

Öllum völdum fylgir ábyrgð, stjórnmálamennirnir okkar verða að umgangast atvinnugreinarnar okkar af virðingu, þar er mikið í húfi. Það er alveg sama hversu vond eða góð þingmönnunum okkar kann að finnast hugmyndin um hækkunina vera. Það er ekki hægt að koma slíkri hækkun í framkvæmd nema með a.m.k. 18 mánaða fyrirvara eigi atvinnugreinin að geta velt slíkum breytingum til þeirra neytenda sem eiga að bera þessa hækkun. Eins og þetta liggur fyrir í dag, lendir þessi hækkun fyrir vanþekkingu stjórnmálamanna á starfsháttum og eðli ferðaþjónustunnar, á ferðaþjónustufyrirtækjunum sjálfum. Ekki þarf sérfræðinga til þess að skoða stöðu margra fyrirtækja í greininni til þess að sjá að þau munu ekki þola slíkt högg.

Ef svo ólíklega vill til að meirihluti þingmanna á haustþingi styður þessa tillögu, þá verður sá meirihluti a.m.k. að sýna þá ábyrgð að hækkunin taki ekki gildi fyrir 1. júní 2014.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×