Skoðun

Í átt til nýrra tíma

Elsa Haraldsdóttir og Kristian Guttesen skrifar
Ný Aðalnámskrá grunnskóla leit dagsins ljós í maí 2011 og er hún með talsvert breyttu sniði frá því áður. Það sést einna best á áherslum hvað varðar tilgang og markmið menntunar. Þessi markmið endurspeglast í því sem í nýju námskránni nefnast grunnþættir menntunar, og eru sex talsins: Lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sjálfbærni, sköpun, heilbrigði og velferð og læsi í víðum skilningi.

Grunnþættirnir kallast á við annað hugtak, lykilhæfni, en það eru viðmið sem lýsa þeirri þekkingu og leikni sem námið gerir nemendum kleift að tileinka sér. Þessir þættir, þ.e. lykilhæfniviðmið og grunnþættir menntunar, eru sannarlega til marks um jákvæða þróun í menntamálum. Segja má að þessar breytingar leggi grunn að og opni fyrir breyttum kennsluháttum. Þessa fjölbreytni má einkum finna í samfélagsgreinunum. Það er kannski helst vegna þess að samfélagsgreinarnar fjalla um manninn sjálfan og stöðu hans í samfélaginu, gagnvart öðrum, og andspænis heiminum. Hér kemur þáttur siðfræðinnar til sögunnar, en hún tekst óneitanlega á við þessar mannlegu hliðar tilverunnar.

Siðfræði birtist fyrst sem faggrein í Aðalnámskrá 1979 og er þá sett inn samhliða kristin- og trúarbragðafræði. Í nýrri Aðalnámskrá fær siðfræðin í fyrsta skipti sitt eigið hlutverk innan samfélagsfræðigreinanna, óháð kristin- og trúarbragðafræði, og er nú ólíkt áður sett í samhengi við heimspeki. Sjálfsagt eru viðfangsefni siðfræðinnar áþekk nú og þau voru fyrir þessum áratugum síðan, en það er mikil framþróun að nú er hún dregin fram í dagsljósið og fær meira vægi innan skólastarfsins, þar sem segja má að hún standi nú á eigin fótum. Leiða má líkur að því að nýtt hlutverk siðfræðinnar innan skólastarfsins sé svar við umræðunni í kjölfar bankahrunsins, þegar fram kom skýr krafa um eflingu gagnrýninnar hugsunar og siðfræði.

Nú eru sérstakir undirkaflar fyrir sérhverja námsgrein aðalnámskrárinnar til umsagnar á vef ráðuneytisins. Lokafrestur til að skila inn athugasemdum er 7. september næstkomandi og eru umrædd drög tilefni þessa greinarkorns.

Í almenna hluta Aðalnámskrár kemur orðrétt fram að undir samfélagsgreinar falli meðal annars „samfélagsfræði, saga, landafræði og þjóðfélagsfræði, trúarbragðafræði, lífsleikni, jafnréttismál og siðfræði ásamt heimspeki". Hér langar okkur að staldra við og beina sjónum að orðalaginu siðfræði ásamt heimspeki.

Fyrir alla þá sem fengist hafa við heimspeki kemur þetta orðalag spánskt fyrir sjónir. Það er vegna þess að siðfræðin er og hefur alltaf verið ein af undirgreinum heimspekinnar en ekki öfugt. Af þeim sökum má velta fyrir sér hvers vegna standi ekki heimspeki ásamt siðfræði. Hér kann einhver að hrópa upp með sér: Þvílík smámunasemi, skiptir það máli hvort sagt er krónur og aurar eða aurar og krónur!? Í stóra samhenginu skiptir það eflaust ekki öllu, það að siðfræði sé hluti af samfélagsgreinum ásamt heimspeki er í sjálfu sér jákvætt. Hins vegar gerir það, að framsetningin er með þessum hætti, það að verkum að ekki er hægt annað en að setja spurningarmerki við hugsunina sem þar liggur að baki. Hvaða merking er lögð í hugtakið siðfræði og hvernig er markmiðum siðfræðikennslu náð?

Hafa verður í huga að siðfræði er og verður aldrei neitt annað en heimspeki. Þegar hún hættir að vera heimspeki, eða þegar hún verður sögð þess umkomin að koma á undan heimspeki (og heimspekileg hugsun þá væntanlega á eftir), þá hættir henni fljótt til að fást við eitthvað annað en henni var ætlað þegar kallað var eftir henni. Siðfræði er ekki mötun á æskilegum gildum. Hlutverk hennar er að styrkja nemendur í að tileinka sér siðferðilega en þó sjálfstæða hugsun. Efling siðfræði felur ávallt í sér eflingu gagnrýninnar hugsunar. Slík hugsun byggir fyrst og síðast á heimspekilegri aðferðafræði og hugsunarhætti.

Þar af leiðir, ef siðfræðin er aftengd eða sett í forgrunn, á undan heimspeki eða gagnrýninni hugsun, þá á hún á hættu að enda sem mötun á æskilegum gildum eða siðaboðskap. Slík nálgun er dæmd til að enda á sama stað og þegar kallað var eftir aukinni siðferðilegri vitund í kjölfar bankahrunsins. Skýr framsetning er grundvöllur að sameiginlegum skilningi á markmiðum og tilgangi náms, sem aftur er lykillinn að farsælu skólastarfi. Lestur Aðalnámskrár svarar ekki með fullnægjandi hætti hvað átt sé við með siðfræði og hvert hlutverk hennar sé í almennri menntun. Fyrrnefnd framsetning, siðfræði ásamt heimspeki, býður upp á misskilning og bjögun þeirra markmiða sem stefnt er að.

Við fögnum þrátt fyrir það nýrri námskrá og þeim breytingum sem hún hefur í för með sér fyrir siðfræðikennslu jafnt og menntun almennt. En Aðalnámskrá grunnskóla er gefin út af mennta- og menningarmálaráðuneyti og henni er öllum skólum landsins skylt að vinna sína skólanámskrá út frá. Framsetning á tilgangi og markmiðum þarf því að vera skýr og einföld. Áskoranirnar eru nægar nú þegar við innleiðingu nýrrar menntastefnu. Þess vegna á ekki að bjóða upp á margræðar og ólíkar túlkanir, ef komist verður hjá því. Nauðsynlegt er að vanda til verka áður en lagt er af stað í átt til nýrra tíma.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×