Innlent

Vilja að sinfónían og óperan greiði tvöfalt hærri húsaleigu

mynd/ valli
Stjórnendur Hörpu vilja að greiðslur frá Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslensku óperunni vegna nýtingar þeirra á aðstöðu í húsinu verði hækkaðar úr 170 milljónum króna á ári í 341 milljón króna. Með því á að bæta rekstur hússins.

Stjórnendur sinfóníuhljómsveitarinnar segja hins vegar að hljómsveitin geti ekki skuldbundið sig til greiðslu hærra gjalds nema með því að framlög til rekstraraðila hennar verði hækkuð. Þeir aðilar sem greiða kostnað við hljómsveitina eru ríkissjóður (82 prósent) og Reykjavíkurborg (18 prósent). Þetta er meðal þess sem kemur fram í úttekt KPMG á rekstri og skipulagi Hörpu sem unnin var fyrir eigendur hússins, ríkissjóð og Reykjavíkurborg. Fréttablaðið hefur hana undir höndum.

Rekstraráætlun Hörpu gerir ráð fyrir að rekstrartap hennar verði 407 milljónir króna á þessu ári. Það er til viðbótar við þann tæpa milljarð króna sem ríki og borg leggja húsinu til vegna greiðslu á lánum. Í úttektinni kemur fram að stjórnendur Hörpu hafi fyrst og fremst horft til lækkunar fasteignagjalda og hækkunar á leigu Sinfóníuhljómsveitarinnar og Íslensku óperunnar til að draga úr fjárþörf sinni. Nú sé hins vegar ljóst að fasteignagjöld lækka ekki. Auk þess segir í úttektinni að hækkun leigu muni hjálpa "en ekki koma í veg fyrir viðvarandi fjárþörf".

Þjónustu- og leigusamningur gerir ráð fyrir því að Íslenska óperan greiði 48 milljónir króna á ári. Sá samningur var gerður í september 2010. Stjórnendur Hörpu vilja að sú upphæð hækki í 82 milljónir króna.

Sinfóníuhljómsveit Íslands greiðir 122 milljónir króna til Hörpu vegna leigu og þjónustu. Samningurinn var gerður árið 2007. Stjórnendur Hörpu telja hækkun á hluta kostnaðar til hljómsveitarinnar ?eitt af lykilatriðunum sem stjórnendur Hörpu hafa lagt áherslu á til að draga úr hallarekstri?. Í fráviksáætlun þeirra er gert ráð fyrir ríflega tvöföldun leigu- og þjónustusamningsins úr 122 milljónum króna á ári í 259 milljónir króna. Sú upphæð þarf að koma frá rekstraraðilum hljómsveitarinnar, íslenska ríkinu og Reykjavíkurborg. Þeir eru sömu aðilar og eiga húsið. -



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×