Skoðun

Ó ljúfa, erfiða sumar

Árni Svanur Daníelsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar
Sumarfríið getur verið yndislegasti tími ársins. Það getur líka verið erfiður tími sem gengur nærri einstaklingum og fjölskyldum. Streita og uppsöfnuð þreyta, ásamt væntingum um allt það skemmtilega sem við viljum gera, geta breytt tíma sem á að vera uppbyggjandi í tíma átaka og vonbrigða.

Sumarálagið getur birst á tvenns konar hátt, sem ytra og innra álag.

Ytra álag tengist fjármálum og skipulagi. Sumarfrí kallar á útgjöld, ekki síst hjá barnafjölskyldum. Það kostar sitt þegar fjölskyldan leggur land undir fót. Ferða-, dvalar- og matarkostnaður innanlands er fljótur að segja til sín, ekki síst þegar margir eru með í för. Sumarnámskeið barnanna geta líka kostað mikið. Svo getur skipulagið sjálft verið flókið. Ekki hafa allir val um hvenær sumarfrí er tekið og geta því ekki valið að eiga það með öðrum fjölskyldumeðlimum. Það getur verið sérlega flókið viðfangsefni fyrir samsettar fjölskyldur að skipuleggja og eiga gott frí saman því koma þarf til móts við væntingar og þarfir fleiri heimila.

Innra álag tengist væntingum og kröfum til sumarfrísins. Við viljum vera með fjölskyldu og vinum og gera margt skemmtilegt. Við viljum líka hvílast og safna kröftum. Ólíkar væntingar til alls sem hugurinn stendur til geta leitt til árekstra. Einn vill vera heima og slaka á, annar vill vera duglegur að ferðast. Sumir eiga líka erfitt með að skilja vinnuna við sig og festast í tölvupósti og Facebook – á meðan makinn bíður og vonar að nú geri hjónin eitthvað saman.

Til að sumarið verði sá nærandi og góði tími sem við þurfum og þráum, verða fjölskyldur að hlusta, koma til móts við, vera sveigjanlegar og sniðugar að sjá nýjar leiðir. Það er nefnilega vinna að vera í fríi. En sú vinna getur líka gefið margfalt af sér.

Höfundar eru prestar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×