Innlent

Tvöfölduð framleiðsla rúmast innan ramma

Viljayfirlýsing um samstarf Breta og Íslendinga í orkumálum var undirrituð á miðvikudag. Mögulegt er að skref verði stigin í því samstarfi strax í júní. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir það spennandi kost.fréttablaðið/gva
Viljayfirlýsing um samstarf Breta og Íslendinga í orkumálum var undirrituð á miðvikudag. Mögulegt er að skref verði stigin í því samstarfi strax í júní. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir það spennandi kost.fréttablaðið/gva
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að hægt sé að tvöfalda raforkuframleiðslu fyrirtækisins án þess að ganga gegn stefnu stjórnvalda um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Rammaáætlun þar um, auk orkustefnu stjórnvalda, gangi ekki gegn slíkri aukningu.

„Það felst ekki endanleg ákvörðun í Rammaáætlun svo erfitt er að segja til um hvernig það fer. Við munum að sjálfsögðu miða okkar áætlanir við Rammaáætlunina. Við höfum sagt að við teljum að hægt sé að tvöfalda orkuframleiðslu á Íslandi á tækni- og umhverfislega fullnægjandi hátt. Ég held að það sé innan marka Rammaáætlunar, ef horft er til biðflokksins þar auk kosta sem ekki eru í Rammaáætlun,“ segir Hörður.

Landsvirkjun framleiðir í dag 655 megavött af raforku með jarðvarma og 1.900 megavött með vatnsafli. Hörður segir mestan vöxtinn verða í jarðvarmanum. Hann segir hins vegar óljóst hve mikla raforku Íslendingar geti vonast til að flytja til Evrópu, verði af sæstreng þangað.

Arion banki stóð fyrir ráðstefnu í gær um orkumál í Evrópu og velti því upp hvort tækifæri væru fyrir íslensk fyrirtæki í þeim málaflokki.

Charles Hendry, orkumálaráðherra Bretlands, lýsti þar miklum áhuga á samvinnu við Íslendinga um efnið, en hann og Oddný G. Harðardóttir iðnaðarráðherra undirrituðu viljayfirlýsingu um aukið samstarf á sviði orkumála á miðvikudag.

Hendry segir að Bretar þurfi að fjárfesta fyrir 100 milljarða punda í raforkugeirum til að ná markmiðum Evrópusambandsins um að hlutur endurnýjanlegra orkugjafa nemi 20 prósentum af allri orkunýtingu árið 2020. Aðra 100 milljarða þurfi almennt í öðrum orkugeirum.

Fjárfestingarþörfin væri því gríðarleg og ljóst að fjöldi starfa mundi skapast í þessum geira á næstunni.

Guðmundur Ingi Ásmundsson, aðstoðarforstjóri Landsnets, sagði að ef sæstrengur til Evrópu yrði að veruleika yrði að efla dreifikerfi fyrirtækisins til muna. Það ætti sérstaklega við um suðausturhluta landsins, þar sem líklegast er að slíkur strengur tengist landinu, verði af honum.

Aðspurður sagði hann óvíst hvaða áhrif það hefði á raforkuverð til neytenda næðist tenging inn á markað þar sem raforkuverð er hærra. Markaðssjónarmið réðu, en til væru leiðir til að halda verði til neytenda lágu.

kolbeinn@frettabladis.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×