Lífið

Kolfinna missti af tískuvikunni í París

Heitasta fyrirsæta landsins, Kolfinna Kristófersdóttir, missti af tískuvikunni í París er hún tognaði á fæti en hún hvílir sig nú á Íslandi.
Heitasta fyrirsæta landsins, Kolfinna Kristófersdóttir, missti af tískuvikunni í París er hún tognaði á fæti en hún hvílir sig nú á Íslandi.

„Þetta er auðvitað svekkjandi en ég er ekki þannig týpa að ég svekki mig á hlutum sem ég get ekki breytt," segir fyrirsætan Kolfinna Kristófersdóttir sem missti af tískuvikunni í París vegna þess að hún tognaði á fæti.

Kolfinna er nú komin heim til Íslands þar sem hún hvílir fótinn samkvæmt fyrirmælum frá lækni. Ástæðan fyrir tognuninni ku vera mikið álag en Kolfinna þurfti að klæðast himinháum hælum í flestum sýningum á tískuvikunni.

„Ég byrjaði að finna til í London því að skórnir sem við fengum voru fáránlegar háir og óþægilegir. Ég hélt samt áfram og fór til Mílanó þar sem ég hitti hönnuði og vann oft alla nóttina. Þegar ég var svo á leiðinni til Parísar versnaði þetta svo mikið að ég þurfti að leita til læknis sem sagði mér að hvíla í allavega tvær vikur," segir Kolfinna sem nýtur þess núna að slappa af á Íslandi með vinum og fjölskyldu.

Kolfinna, sem er á mála hjá Eskimo, hefur heldur betur slegið í gegn í fyrirsætuheiminum en hún hefur gengið tískupallana fyrir hönnuði á borð við Marc Jacobs, Karl Lagerfeld og Donatellu Versace á tískuvikunum. Einnig var Kolfinna valin flottasta fyrirsæta tískuvikunnar í London af lesendum Style.com.

„Þetta er búið að vera mikil törn og mér fannst geðveikt að hitta og vinna með Karl Lagerfeld og Donatellu Versace," segir Kolfinna og viðurkennir að það hafi fyrst verið stressandi að ganga tískupallana og vera mynduð bak og fyrir af heimspressunni. „Ég var rosa stressuð fyrst í New York en svo vandist þetta. Ég fæ samt fiðrildi í magann fyrir hverja sýningu en það er bara skemmtilegt," segir Kolfinna sem heldur aftur út á vit ævintýranna í næstu viku. -áp


Tengdar fréttir

Kolfinna valin best í London

Fyrirsætan Kolfinna Kristófersdóttir bar sigur úr býtum í netkosningu vefsíðunnar Style.com um val á best klæddu fyrirsætu tískuvikunnar í London. Valið stóð á milli tíu fyrirsæta en Kolfinna hlaut alls 42 prósent atkvæða og hreppti þar með fyrsta sætið í netkosningunum.

Brjálað gera hjá Kolfinnu

Fyrirsætan Kolfinna Kristófersdóttir var heldur betur iðin við kolann á nýafstaðinni tískuviku í London en hún gekk tískupallana fyrir sex hönnuði. Þeir hönnuðir sem föluðust eftir kröftum Kolfinnu voru Topshop Unique, House of Holland, Jonathan Saunders, Acne, Christopher Kane og Giles. Kolfinna, sem er á mála hjá Eskimo fyrirsætuskrifstofunni, er nú flogin á vit ævintýranna í Mílanó og París þar sem hún mun eflaust láta til sín taka á tískupöllunum en hún er vinsælt andlit í tískuheiminum í dag.

Kolfinna lokaði sýningu Marc Jacobs í New York

Það er óhætt að segja að fyrirsætan Kolfinna Kristófersdóttir sé að gera það gott í tískuheiminum um þessar mundir. Hún hefur verið í miklu uppáhaldi hjá hönnuðinum Alexander Wang og nú hefur sjálfur Marc Jacobs uppgötvað íslensku fyrirsætuna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.